Fótbolti

Rúmir 800 dagar síðan Man Utd var síðast fyrir ofan Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bryan Mbeumo skoraði fyrsta mark leiksins þegar Manchester United heimsótti Liverpool á dögunum.
Bryan Mbeumo skoraði fyrsta mark leiksins þegar Manchester United heimsótti Liverpool á dögunum. Michael Regan/Getty Images

Eftir erfiða byrjun undir stjórn Ruben Amorim virðast Rauðu djöflarnir í Manchester United loksins vera að komast á gott skrið í ensku úrvalsdeildinni.

United átti afleitt síðasta tímabil þar sem liðið endaði í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Margir veltu fyrir sér hversu lengi nýráðinn Ruben Amorim fengi að hanga í starfi, en stjórn félagsins ákvað að halda tryggð við Portúgalann.

Tímabilið sem nú er tiltölulega nýhafið fór heldur ekki vel af stað hjá liðinu, þrátt fyrir miklar styrkingar í sumarglugganum. Nú virðist liðið hins vegar vera að komast á beinu brautina og United hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og fjóra af síðustu fimm.

Hins vegar hefur hallað undan fæti hjá erkifjendum þeirra, Englandsmeisturum Liverpool. 

Bítlaborgarliðið varð Englandsmeistari á fyrsta tímabili Arne Slot við stjórnvölin og vann fyrstu fimm deildarleiki tímabilsins. Nú hefur Liverpool hins vegar tapað fjórum deildarleikjum í röð og margir stuðningsmenn liðsins klóra sér í höfðinu yfir genginu.

Eftir 4-2 sigur United gegn Brighton í gær, og 3-2 tap Liverpool gegn Brentford, situr United í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig eftir níu leiki, einu stigi meira en Liverpool sem situr í sjötta sæti.

Þetta er í fyrsta skipti sem Manchester United endar umferð í ensku úrvalsdeildinni í sæti fyrir ofan Liverpool síðan eftir fyrstu umferð tímabilsins 2023-2024.

Í gær, þegar leikjum liðanna lauk, voru því 804 dagar frá því að United var síðast fyrir ofan Liverpool í lok umferðar í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×