Handbolti

Neyddar í sömu stöðu og Ís­land og límdu melónur á skóna

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn íslenska landsliðsins héldu fyrir merki Rapyd þegar þær mættu Ísrael í vor og er fyrirtækið ekki lengur styrktaraðili HSÍ. Leikmenn spænska landsliðsins límdu vatnsmelónur á skó sína til að sýna stuðning við Palestínu.
Leikmenn íslenska landsliðsins héldu fyrir merki Rapyd þegar þær mættu Ísrael í vor og er fyrirtækið ekki lengur styrktaraðili HSÍ. Leikmenn spænska landsliðsins límdu vatnsmelónur á skó sína til að sýna stuðning við Palestínu. Samsett

Leikmenn spænska kvennalandsliðsins í handbolta sýndu í verki, líkt og Íslendingar fyrr á þessu ári, að þær hefðu engan áhuga á að spila handboltaleik við Ísrael á meðan að Ísraelar stunduðu þjóðarmorð á Gaza.

Á meðan að stóru alþjóðlegu íþróttasamböndin stöðva ekki þátttöku Ísraels geta lið átt á hættu að vera vísað úr keppni ef þau sniðganga leiki við þjóðina.

Þannig spilaði íslenska kvennalandsliðið við Ísrael um sæti á HM síðasta vor og vann stórsigur í því einvígi sem veldur því að Ísland verður með á HM í lok næsta mánaðar. 

Í yfirlýsingu eftir einvígið hvöttu íslensku stelpurnar íþróttayfirvöld til að endurskoða afstöðu sína gagnvart þátttöku Ísraels í alþjóðlegum keppnum. Liðið hefði aðeins spilað leikina til að tryggja að fáni Íslands yrði á HM en ekki fáni Ísraels.

Leikmenn spænska kvennalandsliðsins sendu einnig frá sér yfirlýsingu fyrir 38-22 stórsigurinn gegn Ísrael í undankeppni EM um helgina. Sá leikur fór, eins og leikir Íslands og Ísraels, fram fyrir luktum dyrum, í Bratislava.

Í yfirlýsingunni sögðu þær ómögulegt fyrir sig að líta framhjá þeirri staðreynd að verið væri að myrða saklausa borgara á hverjum degi, á meðan að þær ættu svo að spila handbolta við Ísrael. Sögðust þær standa með palestínsku þjóðinni sem nú hefði mátt þola það að líf 68.000 manns hefðu verið eyðilögð. „Við keppum, já, en okkur stendur ekki á sama.“

Fyrir leikinn hafði þjálfari Spánar, Ambros Martin, einnig sagt: „Það verður erfitt fyrir okkur að spila við þjóð sem virðir öll mannréttindi að vettugi, þar á meðal réttinn til að lifa.“

Í leiknum sjálfum léku leikmenn Spánar með vatnsmelónulímmiða á skóm sínum en vatnsmelóna er tákn um stuðning við palestínsku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×