Innlent

Fjölgun á þeim sem lög­regla fylgir úr landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flestum er fylgt til heimalands síns eða þess lands þar sem þeir eiga rétt á að dvelja.
Flestum er fylgt til heimalands síns eða þess lands þar sem þeir eiga rétt á að dvelja.

Lögreglan hefur fylgt 298 útlendingum úr landi það sem af er ári, eða 33 á mánuði. Um er að ræða fjölgun frá því í fyrra, þegar 248 var fylgt út á fyrstu níu mánuðum ársins.

Frá þessu er greint á heimasíðu lögreglunnar á island.is, þar sem fjallað er um verkefni heimferða- og fylgdardeilar Ríkislögreglustjóra.

Þar segir að þeim hafi einnig fjölgað sem fara úr landi án fylgdar, það er að segja einstaklingum sem fylgt er út í flugvél en ekki úr landi. Þeir voru 116 á fyrstu níu mánuðum þessa árs en 32 á sama tímabili í fyrra.

Fjölmennasti hópurinn sem fylgt er úr landi eru umsækjendur um alþjóðlega vernd en næst stærsti hópurinn eru þeir sem dvelja hér ólöglega. Flestir eru frá Albaníu, Úkraínu, Nígeríu, Georgíu og Venesúela.

Algengast er að einstaklingum sé vísað til heimalands eða þess lands þar sem það hefur rétt til dvalar. Í flestum tilvikum er um að ræða Albaníu, Pólland, Grikkland, Georgíu eða Venesúela.

Unnið er að því að afla ferðaskilríkja fyrir 54 einstaklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×