Innlent

Vill að Þórunn til­nefni Trump til friðar­verð­launa Nóbels

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Karl Gauti segir alla geta verið sammála um að Trump eigi stærstan þátt í vopnahléinu sem nú er í gildi á Gasa. 
Karl Gauti segir alla geta verið sammála um að Trump eigi stærstan þátt í vopnahléinu sem nú er í gildi á Gasa.  Vísir/Vilhelm

Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins viðraði þá hugmynd á Alþingi í dag að Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis beiti sér fyrir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hlyti friðarverðlaun Nóbels á næsta ári. 

„Fyrir nokkrum dögum tókst að ná samningum um vopnahlé í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir geta verið sammála um að forseti Bandaríkjanna eigi mestan þátt í að átökunum linnti og gíslunum var sleppt,“ sagði Karl Gauti í ræðu sinni í dagskrárliðnum störf þingsins á þingfundi dagsins.

Vopnahlé Ísraelsstjórnar og Hamas tók gildi á föstudaginn. Samkomulagið er fyrsti fasi að varanlegum friði á svæðinu og felur í sér að hersveitir Ísraelshers hörfi af stórum hluta Gasa og sleppi fjölda palestínskra fanga í skiptum fyrir gísla úr haldi Hamas. Fanga- og gíslaskipti fóru fram á mánudag.

Hann bendir á að Amir Ohana, forseti ísraelska þingsins, hafi á mánudag tilkynnt að hann, ásamt Mike Johnson, forseta bandaríska þingsins, ætlaði að hvetja þingforseta um allan heim til að til að leggja fram tilnefningu um að Trump hlyti friðarverðlaun Nóbels á næsta ári.

Hann segir leiðtoga víða í heiminum, þar með talið í Pakistan, hafa tekið undir með þingforsetunum. 

„Frú forseti. Má ekki gera ráð fyrir að forseti Alþingis muni taka vel í þessa hvatningu varðandi veitingu friðarverðlauna Nóbels frá umræddum þingforsetum,“ sagði Karl Gauti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×