Innlent

Tapsárir ung­lingar lofuðu að lækka

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sex gistu í fangaklefa í nótt og 92 mál voru skráð í kerfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan fimm í gær til klukkan fimm í morgun. 
Sex gistu í fangaklefa í nótt og 92 mál voru skráð í kerfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan fimm í gær til klukkan fimm í morgun.  Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um hávaðasamt unglingasamkvæmi í gærkvöldi. Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að um þrjá vini var að ræða sem sögðust tapsárir vegna taps fótboltalandsliðsins gegn Úkraínu. 

Frá þessu er greint í dagbók lögreglu, en þar segir að vinirnir hafi lofað að lækka í sér. Landsleiknum tengt var lögreglu einnig tilkynnt um eld utan við verslunarhúsnæði. Þegar komið var á vettvang reyndist enginn eldur, en þarna var verið að grilla mikið magn hamborgara sem selja átti á landsleiknum.

Þá er sagt frá því að 35 ökumenn hafi verið stöðvaðir fyrir að aka eftir göngugötu í Reykjavík. Þeir eigi von á sekt. 

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í heimahús í Reykjavík vegna ofurölvi einstaklings sem var til vandræða. Fram kemur að viðkomandi hafi veist að lögreglumönnum og því verið vistaður í fangaklefa. 

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistað vegna einstaklings sem réðst á dyraverði. Sá var einnig vistaður í fangaklefa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×