Sport

Heims­meistarinn skiptir mjög ó­vænt um grein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Femke Bol kvaddi 400 metra grindarhlaupið með heimsmeistaragulli á dögunum.
Femke Bol kvaddi 400 metra grindarhlaupið með heimsmeistaragulli á dögunum. Getty/Joris Verwijst

Hollenski heimsmeistarinn Femke Bol fer nýjar leiðir í að leita sér að nýrri áskorun. Nú þurfa nýir andstæðingar að hafa áhyggjur af henni.

Aðeins mánuði eftir að hafa varið heimsmeistaratitil sinn í 400 metra grindahlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Tókýó þá tilkynnti hollenska stórstjarnan að hún væri að skipta yfir í 800 metra hlaup.

Umboðsskrifstofa hennar, ProSports, gaf út fréttatilkynningu og þar mátti einnig sjá myndband af henni ræða þessa stóru ákvörðun sína.

„400 metra grindahlaupið hefur gefið mér ógleymanlegar minningar og mótað mig í þá íþróttakonu sem ég er í dag,“ sagði Bol, sem hefur unnið 11 Evrópumeistaratitla bæði innan- og utanhúss.

Nú vill hún skora á sjálfa sig á ný og finna nýja áskorun.

„800 metra hlaupið er alveg ný áskorun, áskorun sem ég er spennt fyrir því hún mun krefjast nýrra styrkleika, aðferða og seiglu. Metnaður minn er ekki aðeins að keppa heldur einnig að ná árangri á hæsta stigi,“ sagði Bol.

„Þetta er stór breyting. Þetta er óvíst og krefjandi, en ég er tilbúin að leggja vinnuna á mig, umkringd frábæru teymi, og njóta þessa nýja ferðalags,“ sagði Bol.

Þjálfarateymi Bol, stuðningsfólk, styrktaraðilar og hollenska frjálsíþróttasambandið er sagt styðja fullkomlega við þessa djörfu ákvörðun hennar.

„Femke hefur alltaf dafnað á áskorunum. Við trúum því að skreflengd hennar, styrkur og hugarfar muni gera henni kleift að aðlagast 800 metra hlaupinu og að lokum verða að afli á heimsvísu,“ sagði þjálfari hennar, Laurent Meuwly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×