Erlent

Nóbelsnefndin rann­sakar mögu­legan leka og ó­venju­leg veð­mál

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jørgen Watne Frydnes er formaður Nóbelsnefndarinnar.
Jørgen Watne Frydnes er formaður Nóbelsnefndarinnar. AP

Nóbelsstofnunin í Ósló hefur hafið rannsókn á mögulegum leka og innherjaviðskiptun eftir að óvenjuleg veðmál bárust á að María Corina Machado hlyti Friðarverðlaun Nóbels, nokkrum klukkutímum áður en hún hlaut þau.

Maríu Corina Machado voru veitt Friðarverðlaun Nóbels í gær fyrir baráttu sína í þágu lýðræðis í heimalandi sínu Venesúela. Hún er fyrsti Venesúelabúinn til að hreppa verðlaunin.

Skömmu eftir miðnætti í gær að norskum tíma mat veðbankinn Polymarket sigurlíkur Machado upp á 3,75 prósent. Innan við tveimur tímum síðar hins vegar höfðu líkurnar rokið upp í 72,8 prósent sem ber þess merki að nafni sigurvegarans hafi verið lekið.

Samkvæmt umfjöllun Guardian og Financial Times hafði Júlía Navalnaja, hagfræðingurinn og ekkja rússneska andspyrnuleiðtogans Aleksejs Navalní, verið sigurstrangslegust fram á gærdaginn á síðu Polymarket sem er vinsæl veðmálasíða meðal þeirra sem veðja á stjórnmál. Stuðlar síðunnar eru sjálfvirkt unnir út frá veðmálum notenda og því er skyndilegt stökk Machado til marks um óvenjulegar hreyfingar á veðmálum.

Að því er fram kemur í umfjöllun Finansavisen vann einn notandi síðuna tæplega átta milljón íslenskar krónur á því að veðja á Machado en hann hafði búið reikninginn til samdægurs.

Í samtali við Aftenposten sagði forstöðumaður Nóbelsstofnunarinnar að ekki væri hægt að fullyrða enn um hvort nafni sigurvegarans hafi verið lekið en að rannsókn yrði hleypt af stað.

Umfang eða eðli rannsóknarinnar liggur ekki fyrir en af umfjöllun ofangreindra miðla að ráða er um fordæmalausan leka að ræða, ef rétt reynist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×