Innlent

Gögn sem fyrst voru ekki til brunnu síðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Arnar V. Arnarsson, lögmaður foreldra Axels, segir að manntal við komu bátsins í land hefði skipt sköpum upp á björgunaraðgerðir. Það var ekki framkvæmt og fjöldi klukkustunda leið frá því komið var í land þar til viðbragðsaðilum var gert viðvart um að Axel væri horfinn.
Arnar V. Arnarsson, lögmaður foreldra Axels, segir að manntal við komu bátsins í land hefði skipt sköpum upp á björgunaraðgerðir. Það var ekki framkvæmt og fjöldi klukkustunda leið frá því komið var í land þar til viðbragðsaðilum var gert viðvart um að Axel væri horfinn. Vísir/Sara/Ívar Fannar

Lögmaður foreldra sem hafa árangurslaust reynt að sækja bætur til Brims hf. og TM trygginga eftir að sonur þeirra drukknaði á sjó vorið 2020 segir óvíst hvort leitað verði til Hæstaréttar vegna málsins. Hann segir sönnunarstöðu foreldranna í málinu einstaklega erfiða. Brim og TM voru sýknuð af kröfum foreldranna í Landsrétti í vikunni.

Axel Jósefsson Zarioh féll fyrir borð fiskiskips á vegum Brims í Vopnafirði þann 18. maí 2020. Viku síðar var leit að Alex hætt. Tæpu ári síðar, þann 4. apríl 2021, fundust líkamsleifar í flæðamáli fjöru í Vopnafirði sem síðar kom í ljós að tilheyrðu Axel heitnum.

Foreldar Axels höfðuðu mál á hendur Brimi og tryggingafélagi útgerðarinnar, TM, til greiðslu miskabóta. Meðal annars byggðu þeir á því að Axel, sem var ráðinn á bátinn 13 dögum fyrir slysið, hefði ekki verið skráður á öryggisfræðslunámskeið þegar hann hóf störf.

Í dóminum kemur einnig fram að minnst tvær klukkustundir liðu frá því að skipverjum var ljóst að Axel væri ekki meðal þeirra þar til lögreglu var gert viðvart um hvarf hans. Þá vakti athygli að rúmlega einu og hálfu ári eftir slysið brann skipið með þeim afleiðingum að gögn sem foreldrarnir höfðu krafið hina stefndu um glötuðust.

Vonbrigði

Arnar V. Arnarsson, lögmaður foreldranna, segir að ákvörðun Landsréttar um að sýkna félögin hafi verið umbjóðendum hans vonbrigði, þrátt fyrir að hún hafi ekki endilega komið á óvart.

„Í þessu máli er verið að láta reyna á rétt foreldra sem misstu son sinn á sjó, til þess að fá bættan miska sinn,“ segir Arnar. Íslenskt lagaumhverfi sé að hans mati nokkuð tómlegt hvað þetta efni snertir, sem sé miður.

Axel féll útbyrðis þegar um 15 mínútur voru í að báturinn kæmi í land.Vísir/Vilhelm

„Bótareglur á Íslandi einblína fyrst og fremst á að bæta fjárhagslegt tjón. Þegar einstaklingur eins og sá sem hér er undir, 18 ára gamall, á engan á sinni framfærslu, hvorki barn né maka, þá er bótarétturinn svo takmarkaður. Í þessu tilfelli eru sönnunarreglurnar þannig að foreldrarnir þurftu að sanna að sonur þeirra hafi dáið í slysi sem rekja mætti til stórkostlegs gáleysis skipstjóra eða útgerðarinnar.“

Gögn sem sagt að væru ekki til brunnu með bátnum

Arnar bendir á að staða foreldranna til að afla sönnunarganga hafi verið erfið. Þeir hafi verið annars staðar á landinu þegar sonur þeirra féll útbyrðis, enginn hafi séð þegar það gerðist og upptökumyndavélar í bátnum hafi ekki verið virkar þegar Axel féll fyrir borð.

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar þetta ekki, og lögregla rannsakar málið að takmörkuðu leyti sem slys. Það sem við höfum í höndum eru því gríðarlega fátækleg gögn um það sem gæti hafa gerst,“ segir Arnar.

Þá hafi ekki fengist afhent gögn sem hefðu lögum samkvæmt átt að vera um borð í bátnum. Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir þeim hafi síðar verið borið við að gögnin hefðu brunnið þegar báturinn fórst í bruna. Því hafi gögnin ekki legið fyrir til að upplýsa málið.

Sönnunarreglur í íslenskri dómaframkvæmd séu almennt á þann veg að tjónþolar, í þessu tilfelli foreldrarnir, þurfi að bera frumsönnunarbyrðina nema hægt sé að víkja frá því.

„Sú sönnunarbyrði er einstaklega ósanngjörn og erfið fyrir aðstandendur, eins og foreldrana í þessu máli. Hvernig eiga þau að afla sér gagna þegar þetta eru upplýsingarnar og þau gögn sem hægt er að fá eða liggja fyrir?“

Vonir að engu orðnar þegar lögregla kemst í málið

Foreldrarnir hafi því þurft að sýna fram á gáleysi skipstjóra eða útgerðar til þess að fá miska sinn bættan að einhverju leyti.

„Það er það sem þau vildi láta reyna á í þessu tilviki. Málatilbúnaður eins og hann er settur fram lýtur bara að því að horft sé til þess hvernig utanumhald með syni þeirra var í aðdraganda þess að hann fellur útbyrðis, horfa á hvernig var staðið að þjálfun og ráðningu. Þungamiðjan liggur engu að síður líka um það sem gerist í framhaldinu,“ segir Arnar.

Arnar V. Arnarsson er lögmaður foreldranna í málinu.Vísir/Ívar Fannar

Þar vísar hann til þess hversu langur tími leið frá því Axel féll fyrir borð þar til einhver úr hópi skipverja tók eftir því að hann væri ekki á svæðinu og hversu langur tími leið þar til viðbragðsaðilum var gert viðvart.

„Skipulögð leit hefst ekki fyrr en mörgum, mörgum klukkutímum eftir að hann er fallinn útbyrðis. Þar með eru líkurnar á því að bjarga honum, þegar þetta er loksins komið í hendur lögreglu, orðnar nánast engar.“

Fengu ekki gjafsókn

Arnar segir til skoðunar að leita til Hæstaréttar um málskot þangað. Þó hafi ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það enda dómurinn nýfallinn.

 „Auðvitað eru foreldrarnir ekki hressir með þessa niðurstöðu,“ Arnar.

Að mörgu sé að huga í þessu efni, meðal annars því að foreldrarnir hafi ekki fengið gjafsókn og þar með ríkisstyrk til þess að leita með mál sitt til Landsréttar, en það hafi þeir fengið fyrir héraðsdómi. Farið hafi verið yfir sönnunarstöðuna í málinu, og fyrir liggi niðurstaða á tveimur dómstigum. Foreldrarnir vilji þó fá endanlega úrlausn málsins og mögulega láta reyna á hvort niðurstaða Landsréttar fái staðist.

Lögin geri litlar kröfur

Arnar telur málið til marks um hversu takmarkaður lagarammi sé um utanumhald á áhöfnum á íslenskum bátum og skipum.

„Að það séu svona litlar kröfur gerðar til útgerða og skipstjóra um að fylgjast með áhöfnum um borð og við löndun. Þarna liggur fyrir að Axel fellur útbyrðis á tíma sem virðist vera um korteri áður en báturinn kemur í höfn. Það hefði skipt sköpum ef það hefði verið manntal eða annað utanumhald með þessu og hægt að bregðast við strax og komið er í land.“

Brim var sýknað af öllum kröfum foreldranna, rétt eins og tryggingafélagið TM.Vísir/Vilhelm

Lesa megi það úr niðurstöðum bæði héraðsdóms og Landsréttar að núgildandi löggjöf geri ekki ráð fyrir því að slík skylda sem Arnar nefnir hvíli á skipstjórum eða útgerðum.

„Það vekur upp spurningar um hvort það þurfi ekki hreinlega að endurskoða lögin. Hvort þetta sé fullnægjandi gagnvart sjómönnum og skipverjum á Íslandi, að ekki séu gerðar frekari kröfur til öryggis þeirra um borð í skipum,“ segir Arnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×