Innlent

Lagði við Hverfis­götu eftir allt saman

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tinna segir stæðið hafa verið einstaklega illa merkt.
Tinna segir stæðið hafa verið einstaklega illa merkt.

Kona sem taldi sig hafa verið rukkaða að ósekju fyrir að hafa lagt í Hverfisgötu lagði eftir allt saman í stæði við götuna. Hún kennir athyglisbresti um misskilning sinn. Hún segist þó standa við gagnrýni sína á bílastæðafyrirtæki, stæðið hafi auk þess verið einstaklega illa merkt.

Vísir greindi frá því á dögunum að Tinna Þorvalds Önnudóttir hefði snúið vörn í sókn þegar hún fékk rukkun frá bílastæðafyrirtækinu Greenparking síðustu helgi. Tinna taldi sig ekki hafa lagt á Hverfisgötu, sem fyrirtækið rukkaði hana fyrir og sneri vörn í sókn. Hún rukkaði fyrirtækið til baka um tíu þúsund krónur fyrir vinnu við að ná reikningnum til baka.

Fyrirtækið sendi Vísi svör eftir að fréttin birtist. Sögðu forsvarsmenn Greenparking að við álagningu allra vangreiðslugjalda séu teknar myndir sem sýni staðsetningu bíls, dags og tímasetningu. Viðskiptavinir geti óskað eftir þeim til staðfestingar séu þeir í vafa um tilurð vangreiðslugjalda.

Tinna sendi Vísi nú skriflegt erindi þar sem hún segist hafa áttað sig á því að hún hafði þrátt fyrir allt lagt við Hverfisgötu fyrr um daginn en ekki tekið eftir miðanum fyrr en seinna. Hún kennir athyglisbresti um og segir að það breyti því ekki að það hafi verið einstaklega illa merkt að rukkað væri bílastæðagjald í stæðið.

Þá sé ekki hlaupið að því að greiða sektina. „Það er ekki hægt að borga fyrir það nema man eigi snjallsíma,“ segir Tinna og bætir því við að hún standi við gagnrýni sína vegna fjölda bílastæðafyrirtækja sem skotið hafi upp kollinum að undanförnu.


Tengdar fréttir

Sektuð í gjaldfrjálsu stæði og sneri vörn í sókn

Kona sem lagði í gjaldfrjálst stæði við Sundhöllina í Reykjavík var rukkuð af bílastæðafyrirtæki fyrir að hafa lagt án greiðslu í Hverfisgötu. Hún eyddi drjúgum tíma í að fá fyrirtækið til að fella niður rukkunina og ákvað að senda þeim reikning til baka fyrir vinnu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×