Íslenski boltinn

Hefur verið í liðinu eftir að ný leikstaða upp­götvaðist í Sambandsdeildinni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi Guðjónsson er meðal fyrstu manna á blað í byrjunarlið Víkinga
Helgi Guðjónsson er meðal fyrstu manna á blað í byrjunarlið Víkinga Vísir/Lýður

Helgi Guðjónsson hefur verið partur af Víkingsliðinu í öllum þremur Íslandsmeistaratitlunum undanfarin ár. En í vetur fór hann í nýja stöðu og er í dag með þeim fyrstu á blað í byrjunarliðið.

Víkingur varð í gær Íslandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fjórum árum. Helgi skoraði í sigurleik liðsins gegn FH, 2-0, í Bestudeildinni í gærkvöldi og varð allt vitlaust í Fossvoginum að leik lokum. Félagið orðið Íslandsmeistari, þrátt fyrir að eiga eftir að spila tvo leiki.

„Ég var í þessu hlutverki að vera á bekknum fyrstu fjögur fimm árin og tók því bara og gerði eins vel og ég gat og svo breyttist þetta í vetur og ég spilaði nýja stöðu. Það er töluvert skemmtilegra að spila alla þessa leiki og vera alltaf inn á,“ segir Helgi í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

Helgi sem hefur spilað framarlega á vellinum allan sinn feril fann sig í nýrri stöðu í vetur þegar Víkingar léku í Sambandsdeildinni. Núna er hann kominn í öftustu víglínu en sækir samt sem áður mikið upp völlinn.

„Þetta kom upp í Evrópuleikjunum gegn Panathinaikos. Kalli [Karl Friðleifur] var í banni og það vantaði mann sem gat sótt upp völlinn og varist í þessa leiki, þar sem við vorum að fara í fimm manna vörn. Sölvi [Geir Ottesen] ákvað að treysta mér fyrir því og það gekk ágætlega og við vorum óheppnir að fara ekki áfram að mínu mati. Þaðan kom þetta og færðist yfir í það að verða bakvörður í sumar.“

Þessi 26 ára leikmaður útilokar ekki að fara í atvinnumennskuna, eitthvað sem hann hefur aldrei gert áður.

„Ef það kemur eitthvað skemmtilegt upp og allir aðilar eru sáttir þá auðvitað er maður til í að skoða það, af því að það er eitthvað sem ég hef ekki prófað enn þá og væri alveg til í að fá að prófa ef að tækifærið gefst til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×