Fótbolti

Úsbekar leita í reynslu Cannavaro fyrir fyrsta HM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fabio Cannavaro mun stýra landsliði Úsbekistan á fyrsta heimsmeistaramóti liðsins.
Fabio Cannavaro mun stýra landsliði Úsbekistan á fyrsta heimsmeistaramóti liðsins. Marko Lukunic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Fabio Cannavaro hefur tekið við störfum sem landsliðsþjálfari Úsbekistan og mun stýra liðinu á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Cannavaro var fyrirliði heimsmeistaraliðs Ítalíu og valinn besti leikmaður heims árið 2006.

Eftir að farsælum leikmannaferli lauk dembdi hann sér út í þjálfun og hefur aðallega stýrt liðum í Asíu og Mið-Austurlöndunum, en var síðast þjálfari Udinese á Ítalíu og Dinamo Zagreb í Króatíu um stutta stund.

Þetta verður annað landsliðið sem Cannavaro þjálfar en hann entist aðeins tvo leiki með kínverska landsliðinu árið 2019, þegar hann tók við störfum eftir að hafa leitt Guangzho Evergrande að kínverska meistaratitlinum fyrr um árið.

Úsbekistan er á leiðinni á HM í fyrsta sinn. Liðið tryggði sér sæti undir stjórn heimamannsins Timur Kapadze en ákvað að leita í reynslumeiri þjálfara fyrir stórmótið sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.

Meðal lykilmanna hjá úsbeska landsliðinu eru Abdukodir Khusanov, leikmaður Manchester City, og Eldor Shomurodov, framherji Roma sem er á láni hjá Istanbul Basaksehir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×