Innlent

Dóm­stólar neita Jóni Óttari um að fá af­henta haldlagða muni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jón Óttar Ólafsson var eigandi rannsóknarfyrirtækisins PPP, sem hefur verið lagt niður.
Jón Óttar Ólafsson var eigandi rannsóknarfyrirtækisins PPP, sem hefur verið lagt niður. Vísir/Ívar

Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi lögreglumaður og fyrrverandi eigandi PPP, hefur freistað þess að fá aftur muni sem lögregla lagði hald á í húsleitum á heimili hans en ekki haft erindi sem erfiði.

Samkvæmt Heimildinni leitaði Jón Óttar til dómstóla til að fá aftur tölvu, síma og minnislykla frá lögreglunni á Suðurlandi en honum hefur verið hafnað bæði af Héraðsdómi Suðurlands og Landsrétti.

Lögreglan á Suðurlandi hefur unnið að rannsókn þess hvernig gögnum var lekið frá embætti sérstaks saksóknara til PPP, í kjölfar þess að Kveikur fjallaði um eftirlitsaðgerðir Jóns Óttars og Guðmundar Hauks Gunnarssonar fyrir Björgólf Thor Björgólfsson athafnamann.

Heimildin vitnar í dóm Héraðsdóms Suðurlands, sem virðist ekki hafa verið birtur á netinu, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Jón Óttar lægi undir rökstuddum grun og því væri eðlilegt að lögregla héldi umræddum munum í þágu rannsóknarinnar.

Landsréttur er sagður hafa staðfest úrskurð héraðsdóms þann 29. ágúst.

Jón Óttar og Guðmundur Haukur unnu fyrir sérstakan saksóknara en hættu þar árið 2011 og stofnuðu í kjölfarið eftirlitsfyrirtækið PPP, sem virðist meðal annars hafa stundað njósnir gegn greiðslu.

Greint var frá því í júní að Jón Óttar hefði kært Ólaf Þór Hauksson, héraðssaksóknara og fyrrverandi sérstakan saksóknara, fyrir rangar sakargiftir í tengslum við rannsókn á meintum brotum Jóns í tengslum við vinnu hans á vegum PPP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×