Handbolti

Haukar og Fram með mikil­væga sigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hulda Dagsdóttir skoraði 8 mörk í kvöld.
Hulda Dagsdóttir skoraði 8 mörk í kvöld. vísir/vilhelm

Haukar sóttu sigur á Akureyri í Olís deild kvenna á meðan Fram lagði ÍR á heimavelli.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik reyndust Hafnfirðingar sterkari aðilinn gegn KA/Þór og unnu fjögurra marka sigur, lokatölur 23-27.

Tinna Valgerður Gísladóttir var markahæst í liði KA/Þór með sex mörk. Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir kom þar á eftir með fimm. Embla Steindórsdóttir skoraði níu mörk í liði Hauka og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir gerði átta.

Var þetta fyrsta tap KA/Þórs sem eru nú með sex stig að loknum fjórum leikjum. Haukar eru á sama tíma með fimm stig.

Í Grafarholti vann Fram tveggja marka sigur á ÍR en forysta heimaliðsins var talsvert stærri lungann úr leiknum, lokatölur hins vegar 32-30. Hulda Dagsdóttir skoraði átta mörk fyrir Fram. Þar á eftir komu Ásdís Guðmundsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir með fimm mörk hvor.

Fram nú með fimm stig á meðan ÍR er með fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×