Sport

Hófí Dóra vann Suður-Ameríku­bikarinn

Sindri Sverrisson skrifar
Hófí Dóra ánægð eftir frábæran árangur sinn í Síle.
Hófí Dóra ánægð eftir frábæran árangur sinn í Síle. SKÍ

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, eða Hófí Dóra, stóð uppi sem sigurvegari í samanlagðri keppni Suður-Ameríkubikarsins í bruni og risasvigi í Síle. Þessi fremsta skíðakona landsins segir niðurstöðuna koma skemmtilega á óvart og hún mun taka stórt skref upp heimslistann.

Sigurinn gefur góð fyrirheit nú þegar spennandi vetur er framundan þar sem hápunkturinn er að sjálfsögðu Vetrarólympíuleikarnir á Ítalíu í febrúar.

Hófí Dóra keppti alls á fjórum brunmótum og þremur risasvigmótum í Suður-Ameríkubikarnum og endaði alltaf á meðal fjögurra efstu. Hún vann þrenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun, og bætti FIS punktastöðu sína umtalsvert.

„Ég er ótrúlega ánægð með úrslitin og þetta gefur mér mikið sjálfstraust inn í stórt keppnistímabil sem er framundan,“ sagði Hófí Dóra sem naut sín í botn við góðar aðstæður í Síle.

„Ég var alveg búin að setja mér háleit markmið fyrir mótaseríuna en gerði ekki endilega ráð fyrir að ná þessu þannig þetta kom nokkuð á óvart. Með þessu fæ ég bæði betra start í Evrópubikarnum og stekk töluvert upp heimslistann í risasvigi, lítur út fyrir að ég komist loksins í topp 100,“ sagði Hófí Dóra á vef Skíðasambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×