Körfubolti

Fannst Þórsarar og Lárus þurfa frí frá hvor öðrum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lárus Jónsson gerði Þór Þ. að Íslandsmeisturum 2021.
Lárus Jónsson gerði Þór Þ. að Íslandsmeisturum 2021. vísir/jón gautur

Farsælast hefði verið ef leiðir hefðu skilið hjá Þór Þ. og Lárusi Jónssyni eftir síðasta tímabil. Þetta er mat Benedikts Guðmundssonar, sérfræðings Bónus Körfuboltakvölds.

Lárus hefur þjálfað Þór frá 2020 og gerði liðið að Íslandsmeisturum á fyrsta tímabili. Á síðasta tímabili lentu Þórsarar í 10. sæti Bónus deildarinnar og komust ekki í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í átta ár. Lárus var orðaður við önnur félög í sumar, meðal annars Keflavík, en verður áfram við stjórnvölinn hjá Þór.

Benedikt segir að Þórsarar geti ekkert slakað á í vetur, annars gæti farið illa og liðið hreinlega fallið.

„Þórsararnir mæta ekkert í þetta mót og þurfa ekkert að pæla í að þeir séu ekki að fara að falla. Fyrsta markmið hjá þeim er bara að halda sér uppi. Þetta eru rosalegar margar breytingar á liðinu,“ sagði Benedikt í upphitunarþætti Bónus Körfuboltakvölds.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Umræða um Þór Þ. og Lárus

Að mati Benedikts hefðu Lárus og Þórsarar sennilega átt að slíta samstarfi sínu í sumar.

„Mér fannst vera komin einhver þreyta í þetta Þórslið. Maður sá ekki alveg neistann sem hefur verið í þessu liði undanfarin ár. Þannig að mér, þar sem ég fæ nú greitt fyrir að segja mínar skoðanir, fannst Þórsararnir þurfa breytingu á þjálfara og fannst Lalli, þessi frábæri þjálfari, þurfa annað krefjandi verkefni,“ sagði Benedikt.

„Ég held að það hafi verið „win-win“ fyrir báða aðila en það getur verið að ég hafi kolrangt fyrir mér. En mér sýndist það á öllu en svo er kannski endurnýjun á liðinu og þessi neisti kemur aftur.“

Umræðuna úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Þór sækir nýliða ÍA heim í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×