Viðskipti innlent

Snaps teygir anga sína út á Hlemm

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Skilti hefur verið komið fyrir á nýjum bás Snaps.
Skilti hefur verið komið fyrir á nýjum bás Snaps. Vísir/Árni

Veitingastaðurinn Snaps teygir nú anga sína á Hlemm Mathöll. Rekstrarstjóri staðarins vonast til að hægt verði að opna staðinn í byrjun nóvember.

„Við erum komnir með spjald í rúðu mathallarinnar. Það er allavegana á döfinni,“ segir Þórir Helgi Bergsson, rekstrarstjóri Snaps, í samtali við fréttastofu.

Þeim var boðið pláss í mathöllinni fyrir hálfum mánuði og ákváðu að grípa tækifærið. Fyrir var þar staðurinn Nony & Tony í eigu Jóns Arnars Guðbrandssonar. Honum var lokað og stuttu síðar fengu forsvarsmenn Snaps boð um að hefja starfsemi í básnum.

„Þetta kom svolítið snöggt upp og okkur var boðið rýmið. Hlemmur er skemmtilegur staður og allt svo fallegt þarna í kring. Þetta kom upp í hendurnar á okkur að fá þetta og við ákváðum að slá til,“ segir Þórir.

Hér áður var Nony & Tony og þar áður Skál.Vísir/Árni

Þau bíði nú eftir öllum tilskyldum leyfum en vonast til að geta opnað staðinn í byrjun nóvember. Tilvonandi viðskiptavinir geta búist við hinum klassíska Snaps-seðli en segir Þórir samt ætla einnig að leyfa sér að hafa smá gaman.

„Þetta verður allt minna í sniðum en það sem ég hafði hugsað að brönsinn kæmi þarna niður eftir, allavegana um helgar til að byrja með,“ segir hann.

„Þetta verður samt smá óhefðbundið líka, við ætlum að leika okkur líka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×