Innlent

Stranda­glópar slaga í tuttugu þúsund

Árni Sæberg skrifar
Eyjólfur Ármannssson er innviðaráðherra.
Eyjólfur Ármannssson er innviðaráðherra. Vísir/Anton

Um það bil 9.300 Íslendingar sem áttu bókað flug heim að utan á næstu sjö dögum sitja fastir vegna gjaldþrots Play. Um 9.000 ferðamenn eru í sömu sporum hér á landi. Óskað hefur verið eftir því að flugfélög sem fljúga til Íslands bjóði upp á björgunarfargjöld.

Þetta segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra í samtali við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann hefur tölurnar eftir fulltrúum flugfélagsins sáluga. Íslendingarnir eigi bókaðar ferðir frá 22 flugvöllum.

Hann segir stjórnvöld helst aðstoða strandaglópana með því að veita upplýsingar um réttindi þeirra í kjölfar gjaldþrotsins. Þau felist meðal í endurgreiðslurétti, séu ferðir greiddar með kredit- eða debitkortum, réttindum í tengslum við alferðir og endurkröfurétt þeirra sem greiða með millifærslu í þrotabúið.

Þá segir hann að Samgöngustofa hafi farið þess á leit við alþjóðasamtök flugrekenda, IATA, að flugrekendur bjóði upp á svokölluð björgunarfargjöld. Það hafi nokkur félög gert í kjölfar falls Wow air árið 2019. Hann hafi að svo stöddu ekki upplýsingar um að nokkurt flugfélag bjóði upp á slík fargjöld. 26 félög fljúgi til landsins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að félagið hefði bætt við flugi á áætlun frá Kaupmannahöfn annað kvöld. Félagið væri að meta stöðuna varðandi aðrar aðgerðir tengdar gjaldþrotinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×