Sport

Meiddist hroða­lega en fór hlæjandi af velli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fótleggur Hill leit agalega út en hann fór brosandi af velli.
Fótleggur Hill leit agalega út en hann fór brosandi af velli. Samsett/Skjáskot/Getty

Tyreek Hill, útherji Miami Dolphins í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, varð fyrir agalegum meiðslum í leik við New York Jets í Flórída í nótt. Hann virtist fara úr hnjálið en viðbrögð leikmannsins vöktu svo enn meiri athygli.

Hill hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Hann var besti útherji deildarinnar og raðaði inn snertimörkum á þarsíðustu leiktíð en síðan hefur samstarf hans við leikstjórnandann Tua Tagovailoa súrnað. Tagovailoa hefur farið aftur vegna ítrekaðra höfuðmeiðsla.

Hill fór hins vegar ágætlega af stað í leik gærkvöldsins, hafði gripið boltann sex sinnum og farið 67 stikur þegar hann var tæklaður í byrjun þriðja leikhluta. Fótur hans skekktist út á við og leit hreint ekki vel út. Óttast er að hann hafi farið úr hnjálið.

Gott er að vara við myndunum af meiðslunum, sem eru ekki fyrir viðkvæma.

Viðbrögð Tyreeks er honum var trillað af velli vöktu einnig töluverða athygli. Hann klappaði saman höndum, brosti, hló og þakkaði svo áhorfendum. Hvort um kaldhæðni hafi verið að ræða liggur ekki fyrir en útherjinn er sannarlega óhefðbundinn fír.

Óttast er að tímabili hans sé lokið en Dolphins-liðinu tókst án hans að vinna sinn fyrsta leik á tímabilinu, sem er lífsbjörg fyrir þjálfarann Mike McDaniel sem hefur sætt töluverðri gagnrýni á yfirstandandi leiktíð. Þar mátti að stórum hluta þakka innherjanum Darren Waller, sem tók skóna af hillunni til að semja við Dolphins í sumar. Hann skoraði tvö snertimörk í 27-21 sigri.

Í hinum leik næturinnar fóru Denver Broncos illa með Cincinnati Bengals. Lokatölur í Denver urðu 28-3 þar sem Bengals-lið án meidds leikstjórnanda Joe Burrow sér fram á annað magurt ár.

Bo Nix, leikstjórnandi Broncos, fór mikinn er hann kastaði fyrir 326 stikum og tveimur snertimörkum, auk þess að hlaupa sjálfur í endamarkið í eitt skiptið. J.K. Dobbins er þá fyrsti hlauparinn sem fer yfir 100 stikurnar fyrir lið Broncos í 38 leiki, en hann átti fínasta leik í nótt.

Bæði Bengals og Broncos hafa unnið tvo leiki en tapað tveimur í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar.

NFL

Tengdar fréttir

Tyre­ek Hill slengt hand­járnuðum í jörðina á leik­degi

Tyreek Hill, leikmaður Miami Dolphins í NFL-deildinni, vonar að fall sé fararheill en hann var handtekinn á leið sinni á heimavöll Dolphins í dag. Höfrungarnir leika fyrsta leik sinn á leiktíðinni síðar í dag, allt í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×