Erlent

Tugir drengja fastir í rústum skóla sem hrundi til grunna

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Leit stendur yfir í rústunum.
Leit stendur yfir í rústunum. Getty/Robertus Pudyanto

Björgunarmenn leita nú að tugum nemenda sem eru fastir í rústum skólabyggingar sem hrundi til grunna á eyjunni Austur Jövu í Indónesíu í gærkvöldi.

Ljóst er að þrír eru látnir og rúmlega hundrað slösuðust en talið er að þrjátíu og átta til viðbótar séu grafin undir rústunum. Flestir eru drengir á táningsaldri sem voru saman komnir við bænir þegar húsið hrundið. Skólinn sem um ræðir er heimavistarskóli þar sem nemendur búa og læra kennisetningar Íslam undir handleiðslu kennara.

Húsið sem um ræðir var á tveimur hæðum en unnið var að því að bæta tveimur til viðbótar á það. Svo virðist sem grunnur þess hafi ekki þolað hið aukna álag og því hafi húsið hrunið. Nemendur við skólann eru af báðum kynjum og eru á aldrinum tólf til sautján ára að sögn breska ríkisútvarpsins.

Skólinn er þó kynjaskiptur og stúlkurnar voru í öðrum hluta skólans, einnig við bænahald, þegar húsið hrundi og sakaði ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×