Íslenski boltinn

Högg fyrir KR-inga í fallbaráttunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Galdur Guðmundsson er leikmaður KR. Hann skoraði sigurmark gegn Fram í ágúst en ljóst er að hann spilar ekki meira fyrir liðið á tímabilinu.
Galdur Guðmundsson er leikmaður KR. Hann skoraði sigurmark gegn Fram í ágúst en ljóst er að hann spilar ekki meira fyrir liðið á tímabilinu. Mynd/KR

Galdur Guðmundsson, leikmaður KR, er frá út leiktíðina vegna lærameiðsla. KR er í harðri fallbaráttu og verður án krafta unga mannsins sem var keyptur frá Danmörku í sumar.

Galdur stimplaði sig hressilega inn hjá KR eftir að hann kom frá Horsens í Danmörku. Hann skoraði sigurmarkið í 1-0 útisigri KR á Fram þann 18. ágúst en KR hefur ekki unnið leik síðan.

Fótbolti.net greinir frá því að Galdur muni ekki spila meira fyrir félagið á tímabilinu eftir að hafa meiðst í 7-0 afhroði KR-inga gegn Víkingi fyrr í mánuðinum.

Stefán Árni Geirsson hefur verið frá alla leiktíðina vegna meiðsla og Luke Rae einnig verið töluvert frá vegna tognana í læri.

Luke var frá í tæpa þrjá mánuði um mitt mót, frá maí fram í lok júlí. Hann meiddist aftur í leik við ÍBV um Verslunarmannahelgina og hefur ekki spilað síðan.

Ganverjinn Michael Akoto hefur þá aðeins spilað tvo leiki eftir komuna til KR í sumarglugganum en hann fékk heilahristing á æfingu og hefur ekki getað beitt sér að fullu.

Eiður Gauti Sæbjörnsson hefur þá ekki spilað síðan KR vann Fram í fyrrnefndum leik 1-0 þann 18. ágúst, og liðið því ekki unnið leik í hans fjarveru.

Andstæðingur KR um helgina, ÍA, hefur unnið þrjá leiki í röð og er komið af fallsvæðinu, með 25 stig í 10. sæti. KR fór á móti niður í fallsæti, það ellefta, með 24 stig eftir tap fyrir KA síðustu helgi.

Það er því hreinn og klár sex stiga leikur á dagskrá á Akranesi á laugardag sem getur haft mikið að segja um framhaldið í fallbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×