Erlent

Boðar alla her­foringjana á fordæmalausan skyndifund

Samúel Karl Ólason skrifar
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Julia Demaree Nikhinson

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur boðað alla herforingja og aðmírála Bandaríkjanna á fordæmalausan skyndifund. Fundurinn verður haldinn á herstöð í Virginíu í næstu viku en fáir virðast vita um hvað fundurinn á að vera.

Washington Post segir að ekki komi fram í fundarboðinu um hvað fundurinn snúist en það hefur verið sent á hundruð af æðstu stjórnendum herafla Bandaríkjanna. Talsmaður Hegseth staðfesti að fundurinn yrði í næstu viku en vildi ekki segja af hverju.

Í heildina eru um átta hundruð bandarískir herforingjar og aðmírálar víðsvegar um heiminn. Fundarboð Hegseth nær til langflestra þeirra auk aðstoðarmanna þeirra, hvort sem þeir eru á átakasvæðum eða ekki. Skipunin nær ekki til æðstu herforingja Bandaríkjanna og þeirra sem sitja í herforingjaráðinu.

Viðmælendur WP segjast ekki vita til þess að sambærilegur fundur hafi nokkru sinni verið boðaður áður og eru margir sagðir hafa áhyggjur, þar sem þeir viti ekkert um hvað fundurinn snúist. Einhverjir lýstu fundarboðinu sem „skrítnu“.

Vill mikla fækkun herforingja

Hegseth hefur gripið til margra umdeildra aðgerða sem varnarmálaráðherra, eins og breyta nafni ráðuneytisins óformlega í stríðsráðuneytið. Fyrr á árinu var sagt frá því að hann ætlaði að fækka herforingjum um fimmtung og heilt yfir yrðu háttsettum yfirmönnum í heraflanum fækkað um tíu prósent.

Sjá einnig: Fækkar herforingjum um fimmtung

Þá hefur hann rekið fjölda háttsettra embættismanna og hafa reglulegar fregnir borist af óreiðu innan ráðuneytisins.

Um þessar mundir er unnið að nýrri skýrslu um varnarmál í Bandaríkjunum og er búist við því að í henni verði lagt til að Bandaríkjamenn einbeiti sér að því að verja eigin landamæri. Einhverjir heimildarmenn WP telja að fundurinn gæti að einhverju leyti snúið að þeirri skýrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×