Lífið

Ertu sauður? Fimm ráð sem geta forðað þér frá hjarðhegðun

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Samhengið með Sif eru vikulegir pistlar sem birtast alla fimmtudagsmorgna á Vísi.
Samhengið með Sif eru vikulegir pistlar sem birtast alla fimmtudagsmorgna á Vísi. Sara Rut

Þegar fréttir bárust af því að slagsmál hefðu brotist út í verslun skammt frá heimili mínu í London yfir nýrri sendingu af Labubu-böngsum voru fyrstu viðbrögð mín að setja mig á háan hest: Sauðir, hugsaði ég með mér þar sem ég las dagblaðið yfir matcha-tei og Dúbaí-súkkulaði, óraveg frá hjörðinni. Eða svo taldi ég.

Sif Sigmarsdóttir, samfélagsrýnir og sagnfræðingur, setur það sem er í umræðunni í samhengi og raðar því á lista.

Í haustbyrjun bannaði Ísaksskóli nemendum sínum að koma með Labubu-bangsa í skólann.

Labubu-fígúran leit fyrst dagsins ljós árið 2015 sem persóna í myndasögu eftir myndskreytinn og leikfangahönnuðinn Kasing Lung sem fæddist í Hong Kong. Segja má að Íslendingar eigi hlutdeild í bangsanum – ófreskju með munnfylli af vígtönnum sem lítur út eins og afkvæmi leikfanga monsu og Gremlins-skrímslis – því Lung byggði persónuna á norrænum þjóðsögum.

Það var þó ekki fyrr en á síðasta ári, í kjölfar þess að poppstjarna úr kóresku hljómsveitinni BlackPink, sást með Labubu hangandi á handtöskunni sinni að bangsarnir urðu að tískufári sem breiddist um heimsbyggðina eins og kvefpest að hausti.

Labubu-bangsinn er afsprengi dellu-áráttu samtímans sem knúin er algóritmum og áhrifavöldum. Til hvers að leita tilgangsins í lífinu þegar fylla má upp í tómið með gúrkusalati af TikTok...

... eða gosdrykk brugguðum af samfélagsmiðlastjörnum?

Hvert æðið rekur nú annað og smitast milli manna á hraða ljósleiðarans. Við, sem teljum okkur ónæm, erum þó hvergi nærri óhult.

1. Gakktu úr skugga um að æðið sé við þitt hæfi

Ég var stödd í fríi í ensku borginni York í sumar þegar ég kom auga á fólk standa í langri biðröð í örmjórri miðaldagötu. Ég stóðst ekki aðdráttarafl mannmergðarinnar.

„Eftir hverju eruð þið að bíða?“ spurði ég ungt par og plantaði mér aftast í röðina.

„Við erum á leiðinni í draugabúðina.“

„Draugabúðina?“

„Hún selur styttur af draugum.“

Vantaði í alvörunni svona marga styttur af draugum? Miðaldra-furða hlaut að hafa skinið úr andliti mínu.

„Búðin er að „trenda“ á TikTok,“ útskýrði parið góðlátlega.

Ég trúði heitar á skandínavískan minimalisma en styttur – hvað þá draugastyttur. Æðið var ekki við mitt hæfi. Engu að síður átti ég erfitt með að yfirgefa röðina. Ástæðan var undirstaða hverrar samtímadellu.

Mig langaði ekki í draugastyttu. Það þýddi þó ekki að mig gripi ekki FOMO – „fear of missing out“. Var ég að missa af einhverju?

TikTok notendur ásækja drauga í York á EnglandiGetty

2. Mundu að þú ert ekki það sem þú átt

Það er þó ekki aðeins óttinn við skort sem drífur dellur samtímans heldur einnig vonin um ávinning.

Descartes hugsaði, og hér er hann.Getty

Cogito, ergo sum – „ég hugsa, þess vegna er ég,“ er haft eftir 17. aldar heimspekingnum Descartes. Lögmál hjarðarinnar er hins vegar: „Ég hugsa ekki, þess vegna er ég einhver.“

Sigríður Anna Guðjónsdóttir, skólastjóri Ísaksskóla, rakti í samtali við Vísi ástæður Labubu bannsins. Sagði hún bangsana vera farna að „stjórna alls konar hlutum í skólastofum og valda miklum leiðindum.“ Var metingur sérstakt vandamál. 

„Svo á einhver sex bangsa, og þeir hanga allir utan á skólatöskunni,“ sagði Sigríður Anna, „og þá er farið að gráta heima og börnin segja, af hverju á ég ekki svona.“

Það er þó engin nýlunda að löngunin til að komast til metorða drífi áfram dellur.

Hvort er Labubu leikfang eða fylgihlutur? Descartes hefði sennilega getað sagt okkur það.GETTY

Túlípanaæðið sem greip um sig í Hollandi á fyrri hluta 17. aldar er gjarnan nefnt sem dæmi um fyrstu efnahagsbólu sögunnar. Túlípanarnir eru þó ekki síður dæmi um varning sem naut vinsælda fyrir þær sakir að hann þótti bæta þjóðfélagsstöðu eigandans. Dæmi eru um að hollenskt aðalsfólk hafi lagst svo lágt að stela túlípönum úr garði nágrannans til að geta stillt mannkostum sínum upp í blómavasa.

Túlípanaeign þótti gefa til kynna siðfágun.

3. Eina vörnin er sjálfstæð hugsun

Fyrir tíma sjálfunnar: Marteinn Lúther.Getty

Þótt dægur-dellur einkenni samtímann er internetið þó ekki forsenda þess að æði breiðist út. 

Árið 1517 hengdi Marteinn Lúther nokkur blað á hallarkirkjuhurð í Wittenberg í Þýskalandi þar sem hann gagnrýndi kirkjuna fyrir að selja fólki fyrirgefningu synda sinna dýrum dómum.

Í grein í tímaritinu Economist líkir blaðamaður útbreiðslu siðaskiptanna við útbreiðslu efnis á samfélagsmiðlum. Rétt eins og arabíska vorið og kattavídjó á YouTube náðu gífurlegri útbreiðslu á skömmum tíma, þökk sé nýjum miðli sem bauð upp á hraða án mikils tilkostnaðar, bárust skilaboð Lúthers um Evrópu með nýjum miðli sem bauð upp á hraða án mikils tilkostnaðar. Um var að ræða bæklinginn, en hann var ódýrt að prenta og endurprenta – eða „like and share“ eins og það kallast á internetinu.

Dellur koma og dellur fara. Sumar fjara út, aðrar falla inn í meginstrauminn.

Við getum leitt hjá okkur nýjasta „meme-ið“ ...

... og þvertekið fyrir að horfa á YouTube vídjóið sem allir eru að tala um ...

... en aðeins sjálfstæð hugsun ver okkur fyrir mætti hjarðarinnar.

4. Líttu í eigin barm: Þú gætir verið sauður þótt þú vitir ekki af því

Þar sem ég sat með matcha-te og Dúbaí-súkkulaði og hneykslaðist á fólki sem slóst um Labubu-bangsa taldi ég mig hafna yfir hjörðina. Annað kom á daginn.

Aldagömul japönsk tehefðin hafði ratað til mín fyrir tilstilli æðis sem átti upptök sín á samfélagsmiðlum. Dúbaí-súkkulaðið, sem ég hafði í einfeldni minni talið forna uppskrift frá Mið-Austurlöndum, var fundið upp árið 2021 af bresk-egypskum verkfræðingi og varð vinsælt þegar myndband af áhrifavaldi að smjatta á því fór eins og eldur um sinu um internetið.

@mariavehera257 @fixdessertchocolatier WOW, JUST WOW!!! Can’t explain how good these are! When a chocolate, a dessert and a piece of art meet this is what you get! 🍫 "Can't Get Knafeh of it," "Mind Your Own Busicoff," and "Crazy Over Caramel." Order on Instagram Chatfood or Deliveroo and let me know what’s your FIX? Instagram : fixdessertchocolatier #asmr #foodsounds #dubai #dubaidessert ♬ оригинальный звук - Mariavehera

5. Líttu í kringum þig: Hvað ertu með í stofunni?

Það er freistandi að hrista höfuðið yfir veröld þar sem bangsar með vígtennur ákvarða stöðu fólks í samfélaginu, áhrifavaldar sem borða með opinn munninn skilgreina hvað er sælkeramatur og ítalskur heilafúi leysir af hólmi ítalska óperu.

En ekkert er nýtt undir sólinni.

Þú ert kannski ekki með Labubu-bangsa hangandi á handtöskunni eða Dúbaí-súkkulaði í búrskápnum. En ertu með Omaggio vasa á stofuskenknum og Iittala kertastjaka sófaborðinu? Keyptir þú þér húsbíl árið 2018? Keppnisreiðhjól og spandex árið 2019? Ertu með súrdeigsmóður í ísskápnum frá því í kóvid? Ertu að láta setja pott á pallinn?

Hvenær látum við undan eigin löngunum og hvenær hlýðum við jarmi hjarðarinnar? Það er oft erfitt um það að segja.


Tengdar fréttir

Hjarðhegðun Íslendinga

Hjarðhegðun Íslendinga endurspeglar smæð samfélagsins og hræðsluna við það að vera utangátta. Eða hvað? Hvers vegna er landinn á einu auga bragði klæddur í samskonar skó, ferðast til sömu áfangastaðanna og kaupir eins húsgögn? 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.