Körfubolti

Skömmuðust sín fyrir tap gegn Fjallinu: „Hann var ekki svona stór þá“

Sindri Sverrisson skrifar
Nicolas Batum sá Hafþór Júlíus í Game of Thrones og uppgötvaði svo að hann hefði mætt honum í körfuboltaleik, á EM U18 árið 2006.
Nicolas Batum sá Hafþór Júlíus í Game of Thrones og uppgötvaði svo að hann hefði mætt honum í körfuboltaleik, á EM U18 árið 2006. SAMSETT/GOT/GETTY

NBA-leikmaðurinn Nicolas Batum, fyrrverandi fyrirliði franska landsliðsins í körfubolta, rifjaði upp rimmu sína við Hafþór Júlíus Björnsson, eða „Fjallið“, í beinni útsendingu frá leik Íslands og Frakklands á EM á dögunum.

Batum, sem er leikmaður LA Clippers, lýsti sigri Frakka gegn Íslendingum á EM í byrjun þessa mánaðar í útsendingu TF1. 

Þessi 36 ára gamli leikmaður hefur meðal annars orðið Evrópumeistari með Frökkum 2013 og unnið tvenn silfurverðlaun á Ólympíuleikum en þegar hann mætti Hafþóri Júlíusi á körfuboltavellinum, fyrir tæpum tveimur áratugum, var niðurstaðan tap.

Eins og frægt er var Hafþór Júlíus nefnilega körfuboltamaður áður en hann eignaði sér sviðið í aflraunum og sló í gegn í þáttunum Game of Thrones. Hann var í U18-liði Íslands sem gerði sér lítið fyrir og vann Frakka á EM í Grikklandi árið 2006, þegar Batum og félagar urðu Evrópumeistarar. Tap sem Batum lýsir sem stórslysi.

„Við mættum Íslandi á Eurobasket U18 2006, í riðlakeppninni. Ég man vel eftir leiknum því við unnum titilinn þetta ár – eitt uppáhalds augnablik mitt með landsliðinu. Og við töpuðum bara einum leik… gegn Íslandi. Eina tapið okkar og eini sigur þeirra – þeir urðu neðstir. Þetta var stórslys fyrir okkur,“ rifjaði Batum upp en um þetta er fjallað á vef FIBA.

„Ég var að spila með Alexis Ajinça, Adrien Moerman, Antoine Diot, Edwin Jackson, Ludovic Vaty, Kim Tillie. Við vorum með frábært lið.“

Hafþór Júlíus var svo sem ekki í stóru hlutverki í íslenska liðinu en vissulega hluti af hópnum og þótti efnilegur áður en hann varð að hætta í körfubolta um tvítugt vegna hnémeiðsla.

„Það er gaman að rifja upp að 10-12 árum síðar – ég man ekki hver sagði mér þetta – þá vorum við aðdáendur Game of Thrones og það kom í ljós að þennan dag hafði ég spilað á móti Fjallinu, Hafþóri Björnssyni. Það þekkti hann enginn þá – hann var bara venjulegur U18-leikmaður. Ég mætti honum og tapaði.

Ég get því ekki verið með neinn kjaft við hann, ekki það að ég myndi gera það í ljósi þess hvað maðurinn er orðinn stór. En ég fattaði þetta bara löngu síðar. Hann var ekki svona stór þá. Það hefði enginn getað giskað á að hann yrði svona stór og sterkur,“ sagði Batum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×