Erlent

Hans Enoksen er látinn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hans Enoksen var formaður landsstjórnar Grænlands á árunum 2002 til 2009.
Hans Enoksen var formaður landsstjórnar Grænlands á árunum 2002 til 2009. EPA

Grænlenski stjórnmálamaðurinn Hans Enoksen er látinn, 69 ára að aldri. Enoksen var formaður grænlensku landstjórnarinnar á árunum 2002 til 2009, en hann lést eftir langvarandi veikindi.

Pele Broberg, formaður stjórnmálaflokksins Naleraq, staðfestir fréttir af andlátinu við grænlenska miðilinn Sermitsiaq, en Enoksen stofnaði flokkinn á sínum tíma.

Enoksen átti langan stjórnmálaferil sem hófst þegar hann var um þrítugt og var kjörinn í sveitarstjórn árið 1987 í sinni heimabyggð. Hann var sveitarstjóri í Sisimiut um tíma árið 1998 en annars varði hann mestum hluta síns ferils í landspólitíkinni á grænlenska þinginu, Inasisartut, eða frá árinu 1995.

Hann var kjörinn formaður Siumut flokksins eftir miklar innanflokkserjur árið 2002 og leiddi flokkinn til sigurs í kosningum sama ár. Hann leiddi landstjórnina, Naalakkersuisut, fyrir flokkinn til ársins 2009 þegar flokkurinn tapaði í kosningum fyrir helstu pólitísku keppinautum sínum í Inuit Ataqatigiit.

Enoksen hætti sem formaður flokksins eftir tapið 2009 og sagði sig svo úr Siumut og stofnaði nýjan flokk, Naleraq, árið 2014. Hann hafði aðkomu að nokkrum landsstjórnum Grænlands síðan og var forseti þingsins 2018, en lét af störfum sem formaður Naleraq árið 2022 þegar eftirmaður hans Pele Broberg tók við formennsku.

Enoksen lætur eftir sig eiginkonu, börn, barnabörn og barnabarnabörn, að því er fram kemur í frétt Sermitsiaq.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×