Sport

Vann Ólympíu­brons en ætlar að keppa á Stera­leikunum og slá heims­metið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fred Kerley með Ólympíubronsið sitt.
Fred Kerley með Ólympíubronsið sitt. epa/ANNA SZILAGYI

Bandaríski spretthlauparinn Fred Kerley, sem vann til bronsverðlauna í hundrað metra hlaupi á Ólympíuleikunum í fyrra, ætlar að keppa á Steraleikunum á næsta ári.

Kerley er fyrsti frjálsíþróttamaðurinn og fyrsti bandaríski karlinn sem gengur til liðs við Steraleikana þar sem engar reglur eru varðandi lyfjanotkun keppenda.

Kerley vann brons í eftirminnilegu hundrað metra hlaupi á Ólympíuleikunum í París í fyrra. Í síðasta mánuði var hann dæmdur í tímabundið bann fyrir að missa af lyfjaprófum. 

Hinn þrítugi Kerley hefur tvisvar verið handtekinn á þessu ári, fyrst í janúar eftir viðskipti við lögreglumenn og svo í maí vegna gruns um að hafa ráðist á fyrrverandi kærustu sína, frjálsíþróttakonuna Alayshu Johnson.

Kerley varð heimsmeistari í hundrað metra hlaupi fyrir þremur árum og vann silfur í greininni á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021. Hann stefnir á að bæta heimsmetið í greininni á Steraleikunum sem fara í fyrsta sinn fram á næsta ári.

Ef Kerley bætir heimsmet Usains Bolt (9,58 sekúndur) á Steraleikunum fær hann eina milljón Bandaríkjadala í verðlaunafé. Kerley á sjötta besta tíma sögunnar í hundrað metra hlaupi, eða 9,76 sekúndur.

Kerley er annar Ólympíuverðlaunahafinn á skömmum tíma sem tilkynnir að hann ætli að keppa á Steraleikunum. Enski sundmaðurinn Ben Proud ætlar einnig að gera það.

Breska sundsambandið lýsti yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Prouds að taka þátt á Steraleikunum og fordæmdi hana. Alþjóðlega sundsambandið varð fyrr á þessu ári fyrsta alþjóðlega íþróttasambandið sem bannar íþróttafólki sem tekur þátt á Steraleikunum að keppa á mótum á sínum vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×