Sport

Hefur bætt heims­metið um þrettán sentí­metra á fimm árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Armand Duplantis er ein skærasta stjarna frjálsíþróttanna.
Armand Duplantis er ein skærasta stjarna frjálsíþróttanna. epa/ALEX PLAVEVSKI

Svíinn magnaði, Armand Duplantis, sló heimsmetið í stangarstökki í fjórtánda sinn í gær. Hann sló metið fyrst fyrir fimm árum og hefur síðan þá bætt það um þrettán sentímetra.

Duplantis varð í gær heimsmeistari utanhúss í stangarstökki í þriðja sinn. Hann lét ekki þar við sitja og setti nýtt heimsmet er hann lyfti sér yfir 6,30 metra.

Duplantis bætti heimsmetið sem hann setti fyrir mánuði um einn sentímetra. Hann hefur sett fjögur heimsmet á þessu ári en hann lyfti sér yfir 6,27 metra í febrúar og 6,28 metra í júní.

Duplantis sló heimsmetið í fyrsta sinn í Póllandi í febrúar 2020. Hann lyfti sér þá yfir 6,17 metra og bætti met Frakkans Renauds Lavillenie um einn sentímetra. Met hans hafði staðið frá 2014. 

Alls hefur Dulpantis bætt heimsmetið um samtals þrettán sentímetra á fimm árum.

Úkraínumaðurinn Sergey Bubka hefur oftast slegið heimsmetið utanhúss, eða sautján sinnum.

Hann gerði það á tíu ára tímabili (1984-1994) og bætti metið um samtals 29 sentímetra. Síðasta heimsmetið sem Bubka setti (6,14 metrar) stóð í 26 ár, eða þar til Lavallenie sló það 2020.

Bubka sló einnig heimsmetið í stangarstökki innanhúss átján sinnum en frá aldamótum hefur ekki verið gerður greinarmunur á heimsmetum innan- og utanhúss. Aðeins er um að ræða eitt heimsmet í stangarstökki.


Tengdar fréttir

Fagnaði heimsmetinu í karíókí herbergi

Heimsmeistarinn í stangarstökki, Armand Duplantis, fagnaði sínu fjórtánda heimsmeti í greininni með því að leigja karíókí herbergi í Tókýó. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×