Erlent

Ekkja Kirk tjáir sig eftir morðið

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Erika Kirk ávarpaði bandarísku þjóðina í fyrsta sinn frá morðinu í gærkvöldi.
Erika Kirk ávarpaði bandarísku þjóðina í fyrsta sinn frá morðinu í gærkvöldi. Getty

Erika Kirk, ekkja hægri-áhrifavaldsins Charlie Kirk sem var skotinn til bana á miðvikudag, tjáði sig opinberlega í fyrsta sinn frá morðinu í gærkvöldi. Hún hét því að halda boðskap hans á lífi og ávarpaði morðingja hans beint.

Charlie Kirk, bandamaður Donalds Trump og hægri-áhrifavaldur, var skotinn til bana á viðburði þar sem hann rökræddi við háskólanema í Utah á miðvikudag. Hann lætur eftir sig eiginkonuna Eriku Kirk og tvö börn, eins og þriggja ára.

Í streymi sem birt var á vef ungliðahreyfingar Charlie Kirk þakkar Erika viðbragðsaðilum fyrir hetjulega baráttu við að reyna að bjarga lífi eiginmanns hennar á miðvikudag. Þá þakkar hún Trump fyrir hlýjar kveðjur til fjölskyldunnar og fyrir vinskap hans og eiginmannsins.

Hún hét því að halda áfram að dreifa boðskap eiginmannsins. Hann var á skipulögðu ferðalagi um háskóla landsins þegar hann var myrtur en Erika sagðist ætla að nýta sér bæði þann vettvang og hlaðvarp hans til að halda boðskap hans á lífi. 

„Eiginmaður minn fórnaði lífi sínu fyrir mig, þjóðina okkar og börnin okkar. Hann elskaði okkur skilyrðislaust,“ sagði Kirk í ávarpinu. 

Hún sagði þrautinni þyngra að þurfa að segja börnunum tveimur frá skyndilegu fráfalli föður þeirra. Þá ávarpaði hún morðingja Kirk beint:

„Ef þú hélst að boðskapur Kirk hafi verið nógu áhrifamikill fyrir, hefurðu enga hugmynd um það sem þú hefur nú leyst úr læðingi. Þú hefur ekki hugmynd um þá bræði sem þú hefur valdið innra með mér. Gráturinn minn mun óma um heiminn eins og stríðsóp.“

Hinn 22 ára gamli Tyler Robinson var handtekinn í gær grunaður um morðið á Charlie Kirk. Hans hafði verið leitað í 33 klukkustundir frá morðinu en í umfjöllun BBC segir að faðir hans hafi sannfært hann um að gefa sig fram. 


Tengdar fréttir

Öllum sem geri lítið úr morðinu „verði refsað“

Pete Hegseth varnarmálaráðherra, og verðandi stríðsmálaráðherra, Bandaríkjanna hefur fyrirskipað ráðuneytinu að kemba samfélagsmiðla starfsfólks í leit að „óviðeigandi ummælum“ varðandi morðið á áhrifavaldinum öfgafulla Charlie Kirk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×