Erlent

Opin­bera bréf Trumps til Epsteins

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald og Melania Trump, Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell í samkvæmi árið 2000.
Donald og Melania Trump, Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell í samkvæmi árið 2000. Getty og Demókratar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Fulltrúa

Afrit af bók sem barnaníðingurinn Jeffrey Epstein fékk að gjöf frá vinum sínum þegar hann varð fimmtugur árið 2003 er komið í hendur þingmanna. Bókin inniheldur meðal annars bréf og teikningu frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Hann hefur sagt að bréfið, sem hann skrifaði undir, sé ekki raunverulegt.

Trump og Epstein voru miklir vinir á árum áður en deildu um fasteign í Flórída árið 2004 og mun það hafa leitt til þess að þeir hættu að vera vinir.

Sjá einnig: „Hann stal fólki sem vann fyrir mig“

Bókin og önnur gögn hafa verið afhent til stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Nefndin stefndi nýverið dánarbúi Epsteins og fór fram á öll gögn sem gætu á nokkurn hátt tengst mögulegum lista yfir skjólstæðinga Epsteins eða aðra sem komu að barnaníði eða mansali með honum.

Sjá einnig: Stefna búi Epsteins og vilja afmælisbókina

Það sem nefndin hefur fengið er afmælisbókin, erfðaskrá Epsteins, gamlar skrár yfir tengiliði og símanúmer þeirra og heimilisföng, bankaupplýsingar og mjög svo umdeilt samkomulag sem Epstein gerði við saksóknara í Flórída árið 2007.

Alexander Acosta, fyrrverandi saksóknari í Flórída og fyrrverandi ráðherra í fyrri ríkisstjórn Trumps, gerði árið 2007 mjög umdeilt samkomulag við Eppstein árið 2007. Þá játaði Epstein á sig kynferðisbrot og gerði samkomulag við Acosta sem fól í sér að hann sat í fangelsi í þrettán mánuði fyrir að misnota á fjórða tug ungra stúlkna undir lögaldri í New York og Flórída frá árunum 2002 til 2005. Samkomulagið gerði honum kleift að komast hjá alríkisákærum og kom í veg fyrir að hægt væri að ákæra einhverja af samverkamönnum Epsteins.

Umdeilt afmælisbréf

Í afmælisbókinni er bréfið frá Trump og hafa Demókratar í nefndinni birt mynd af því. Bréfið er í raun sett upp eins og samræður milli Trumps og Epsteins þar sem þeir eru að tala um leyndarmál þeirra á milli og sameiginlegt áhugamál þeirra.

Bréfið sem á að vera frá Donald Trump til Jeffreys Epstein þegar sá síðarnefndi varð fimmtugur.

Atriðið á að hefjast á því að rödd heyrist segja: „Lífið hlýtur að snúast um meira en að eiga allt.“

„Við eigum ákveðna hluti sameiginlega, Jeffrey,“ segir Trump í bréfinu og fær svarið: „Já, við gerum það, þegar ég hugsa um að.“

Þá segir Trump:

„Ráðgátur eldast aldrei, hefur þú tekið eftir því?“

„Já reyndar, það varð mér ljóst síðast þegar ég sá þig,“ svaraði Epstein í atriðinu í myndaða.

„Vinur er dásamlegur hlutur. Til hamingju með afmælið og megi hver dagur vera nýtt yndislegt leyndarmál, Donald J. Trump.“

Utan um textann hefur verið teiknuð gróf mynd af líkama konu svo undirskrift Trumps líti út sem skapahár hennar.

Ýttu undir samsæriskenningar og neituðu svo að birta upplýsingar

Epstein svipti sig lífi í fangelsi árið 2019. Hann var 66 ára gamall og hafði þá verið ákærður fyrir mansal og sakaður um að misnota stúlkur kynferðislega og jafnvel útvega áhrifamiklum vinum sínum eins og Andrési prins stúlkur til að misnota.

Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærasta hans og aðstoðarkona, var árið 2021 dæmd í tuttugu ára fangelsi fyrir með því að hafa útvegað Epstein táningsstúlkur til að brjóta á í gegnum árin. Hún hefur afplánað í alríkisfangelsi í Flórída en var nýverið flutt í lágmarksöryggis fangabúðir í Texas. Það var skömmu eftir að hún var heimsótt af Todd Blanche, aðstoðardómsmálaráðherra.

Eftir það var birt afrit af viðtali Blanche við hana þar sem haft er eftir henni að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og fyrrverandi vinur Epsteins, hafi aldrei hegðað sér ósæmilega og að „Epstein-skjölin“ svokölluðu væru ekki til.

Sjá einnig: „Forsetinn var aldrei óviðeigandi við neinn“

Trump og bandamenn hans hafa á undanförnum árum kynnt undir samsæriskenningar um Epstein og dauða hans en málið hefur reynst Trump erfitt eftir að hann varð aftur forseti. Ríkisstjórn hans hefur staðið í vegi þess að frekari gögn úr málinu yrðu opinberuð en fregnir hafa einnig borist af því að Trump hafi verið tilkynnt að nafn hans komi nokkrum sinnum fyrir í rannsóknargögnunum.

Hann og aðrir sem starfa nú í ríkisstjórn hans höfðu áður heitið því að opinbera öll gögn rannsóknarinnar.

Miklar samsæriskenningar hafa farið á flug tengdar Epstein á undanförnum árum. Þar á meðal hefur því verið haldið fram að yfirvöld í Bandaríkjunum sitji á umfangsmiklum gögnum sem bendli þekkt fólk við misnotkun Epstein. Því hefur einnig verið haldið fram að Epstein hafi verið myrtur í fangelsinu en ekki svipt sig lífi.

Meðal samsæriskenninganna sem tengjast Epstein er að hann hafi átt lista yfir áhrifamikla menn í Bandaríkjunum sem hafi misnotað stúlkur með honum og á eyju hans. Það er listi sem meðlimir áðurnefndrar þingnefndar vilja koma höndum yfir.

Hóta lögsóknum

Taylor Budowich, sem er aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins, heldur því fram að undirskriftin á bréfinu sé ekki undirskrift Trumps. Þetta sagði hann á X og birti aðrar myndir af nýjum undirskriftum Trumps sem eiga að sanna mál hans. Samhliða myndinum gaf hann til kynna að Trump myndi fara í mál við News Corp vegna meiðyrða.

News Corp rekur meðal annars Fox News og Wall Street Journal. Af hverju Trump ætti að fara í mál við fyrirtækið vegna birtingar myndar úr þingnefnd liggur ekki fyrir en Wall Street Journal sagði frá tilvist bréfsins í sumar og það var þá þegar Trump staðhæfði að hann hefði aldrei skrifað bréf til Epsteins.

Nú hefur miðillinn birt grein þar sem undirskriftin í bréfinu er borin saman við aðrar undirskriftir Trumps frá þessu tímabili. 

Sjá einnig: „Til hamingju með af­mælið... og megi allir dagar vera annað dá­sam­legt leyndar­mál“

Karoline Leavitt, talskona Hvíta hússins, hefur sömuleiðis beint spjótum sínum að Wall Street Journal og heldur því einnig fram að Trump hafi ekki teiknað konuna eða skrifað undir bréfið. Hún segir að lögmenn hans muni höfða mál vegna myndbirtingarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×