Upp­gjörið: Ís­land - Fær­eyjar 1-2 | Ís­lendingar í gjafastuði

Ólafur Þór Jónsson skrifar
Sárir Íslendingar.
Sárir Íslendingar. Vísir/Anton Brink

Undankeppni Evrópumóts landsliða 21 árs og yngri hófst í dag með einum leik þegar Ísland tók á móti vinum okkar frá Færeyjum í Laugardalnum. Leiknum lauk með óvæntum 2-1 sigri gestanna.

Fyrir leik sagði Ólafur Ingi Skúlason þjálfari liðsins í samtali við Sýn Sport að liðið þyrfti að gæta sín á skyndisóknum Færeyinga og að liðið ætlaði sér annað af tveimur efstu sætum riðilsins.

Krummafótur frá upphafi

Strax á þriðju mínútu fengu Íslendingar að kenna á skyndisókn Færeyja og markmið liðsins strax orðið langsótt. Áki Samuelsen geystist þá upp vinstri kantinn óáreittur, sendi boltann fyrir teiginn þar sem Mattias Hellisdal átti laust skot í fjærhornið sem söng í netinu. Varnarmenn Íslands stóðu og horfðu á þetta gerast eins og umferðarkeilur.

Íslenski varnarleikurinn var eins og vefverslun UN Women, gjöf sem gefur. Því á 16 mínútu gaf Jóhannes Bjarnason skelfilega sendingu á Lúkas í markinu sem Áki Samuelsen komst á milli og skoraði örugglega.

Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleiknum og Færeyingar fóru með góða 2-0 forystu í hálfleikinn. Íslenska liðið var mjög flatt og lint í fyrri hálfleiknum en Færeyingarnir sátu aftur og voru grjótharðir.

Gestirnir fagna.Vísir/Anton Brink

Spyrnt sér af botninum

Íslendingar lömdu aðeins frá sér í seinni hálfleik. Færeyska liðið fór allt fyrir aftar boltann sem þýddi að Ísland hélt í boltann nánast allan seinni hálfleikinn. Á endanum brast stíflan þegar Lúkas Petersson átti langa markspyrnu yfir allan völlinn á Hilmi Rafn sem tók boltann í teignum og lúðraði honum fyrir markið þar sem Heini Sorensen varð fyrir honum og í netið.

Skelfileg niðurstaða

Fleiri mörk komu ekki þrátt fyrir mikla pressu Íslands á lokamínútunum. Niðurstaðan hörmulegt tap gegn Færeyjum í upphafsleik undankeppninnar. Eins og fyrr hefur komið fram var Ólafur Ingi með háleit markmið fyrir leikinn en frammistaða dagsins fer langt með að jarða það markmið. Íslenska liði kom þannig til leiks að það var eins og liðið héldi að þetta væri verkefni sem hægt væri að sinna með annari hendinni. Svo varð svo sannarlega ekki raunin. Færeyingar voru agaðir í sínum aðgerðum en þau fáu færi sem þeir fengu voru hættuleg. Íslenska vörnin var gripin í landhelgi í hvert sinn sem Færeyjar fóru yfir miðju og það hlýtur að vera helsta áhyggjuefni dagsins.

Menn reyndu allt.Vísir/Anton Brink

Næsti leikur Íslands í keppninni er gegn Eistlandi á útivelli. Það er einfaldlega skyldusigur eftir tap dagsins. Tap þar ytra þýðir einfaldlega að sénsinn er úti.

Atvikið

Mark tvö hjá Færeyingum var algjör gjöf. Það virtist mikið kjaftshögg fyrir íslensku leikmennina sem sendu fjórar skelfilegar sendingar útaf vellinum fyrstu mínúturnar eftir á og voru lengi að finna taktinn. Þetta annað mark gaf Færeyjum líka tækifæri til að leggja ekki bara einni rútu í teignum sínum heldur heilu rútufyrirtæki. Þeir pökkuðu í vörn og voru skynsamir út leikinn.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Færeyjum var Áki Samuelsen klárlega besti maður vallarsins. Skoraði og lagði upp fyrir gestina. Þá var mikill kraftur í honum og alltaf hætta þegar hann lagði af stað.

Það er erfitt að hrósa einhverjum í íslenska liðinu í dag en Hilmir Rafn lét finna fyrir sér og skapaði mark Íslands.

Ágúst Orri og Helgi Fróði hófu leikinn á sitthvorum kantinum fyrir Ísland. Þeir áttu báðir mjög slakan dag. Klöppuðu boltanum alltaf aðeins of mikið, töpuðu boltanum klaufalega og kom lítið útúr þeim.

Jóhannes Kristinn Bjarnason gaf síðan mark tvö hjá Færeyingum og var gjörsamlega týndur varnarlega. Sóknarlega með hættulegar spyrnur sem bjargaði frammistöðu hans fyrir horn.

Umgjörð og Stemmning

Það var hellidemba á Avis vellinum í dag. Völlurinn var mjög blautur framan af leik sem segja má að hafi verið kjöraðstæður fyrir fótboltaleik. Vel fór um blaðamenn og umgjörð Þróttara og KSÍ til fyrirmyndar.

Dómararnir

Skoska teymið var öruggt í sínum aðgerðum. Hardie sem stýrði teyminu í dag tók varla ranga ákvörðun og leyfði leiknum að flæða vel. Þetta var ekki erfiður leikur að dæma þar sem lítið um vafaatriði voru en þeir leystu verkefni dagisns af mikilli prýði.

Eggert Aron: Erfitt að setja tilfinningarnar í orð

Eggert Aron í baráttunni.Vísir/Anton Brink

„Erfitt að setja þetta í orð. Við erum búnir að eiga góðan undirbúning fyrir leikinn en þetta var bara ekki nógu gott. Gefum þeim tvö mörk, þeir verjast vel en þetta gekk bara ekki upp í dag,“ sagði Eggert Aron Guðmundsson eftir leik.

Ísland gaf Færeyjum tvö mörk snemma í leiknum ef svo má segja og reyndist verkefnið þungt eftir það og tók Eggert undir það.

„Stundum bara gerist þetta. Ef maður fær á sig tvö ódýr mörk í landsleik þá er þetta bara erfitt. Við vörðumst vel í dag en vorum ekki nógu góðir. Ætlum að gera betur í næsta leik.“

„Þetta var erfitt, þeir gera þetta vel. Við eigum leik á mánudaginn til að svara fyrir þetta og við ætlum að sýna fólki að við getum unnið leiki aftur.“

Ísland mætir Eistlandi í næsta leik liðsins í þessari undankeppni sem hófst í dag. Eggert sagði liðið bogna en ekki brotna eftir leik.

„Við setjum pressu á okkur sjálfa að vinna. Við erum með hörkulið þó við höfum ekki sýnt það í dag. Sýndum þá á köflum að við erum vel spilandi lið. Þurfum aðeins að slípa þetta saman og þá verður það frábært,“ sagði Eggert Aron að lokum

Hlynur Freyr: Getum ekki farið að væla núna

Hlynur Freyr Karlsson fyrirliði Íslands ræddi við Vísi eftir leik og viðurkenndi svekkelsi sitt.

„Gríðarlega svekkjandi. Við sköpum okkur nóg af færum til að vinna þennan leik en svona er fótboltinn. Við gerum mistök en við erum lið og þetta þjappar okkur saman,“ sagði Hlynur Freyr og bætti við um mörkin sem Íslands fékk á sig snemma í leiknum.

„Mjög svekkjandi því við höfðum talað um þessar skyndisóknir þeirra fyrir leikinn svo gerist þetta strax í upphafi leiks. Þurfum bara að þjappa okkur saman.“ 

„Vorum mikið með boltann því þeir eru mjög þéttir og það var erfitt að brjóta þá. Við sköpuðum okkur nóg af færum og gátum skorað fleiri mörk.“

Ísland mætir Eistlandi í næsta leik liðsins í þessari undankeppni sem hófst í dag. Það var engan bilbug á Hlyni að finna þrátt fyrir tapið.

„Komum sterkari til baka, það er ekkert flóknara en það. Getum ekki farið að væla núna. Þurfum að þjappa okkur saman og kýla á næsta leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira