Lífið

Þjóðbúningurinn aðal skvísuflíkin í dag

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Þjóðbúningurinn nýtur mikilla vinsælda og er orðinn að tískuflík.
Þjóðbúningurinn nýtur mikilla vinsælda og er orðinn að tískuflík. HFÍ

Í samfélaginu ríkir ákveðið þjóðbúningaæði og segja sumir tískuspekingar að slík flík sé ómissandi í fataskápinn fyrir þau sem kjósa að kalla sig alvöru skvísur. Þjóðbúningadagurinn verður haldinn hátíðlegur á Þjóðminjasafninu laugardaginn 6. september og blaðamaður tók í tilefni af því púlsinn á Kristínu Völu formanni Heimilisiðnaðarfélags Íslands.

Biðlistar eftir þjóðbúninganámskeiði að springa

Það að sauma sér þjóðbúning er nýjasta æðið hjá skvísum landsins og biðlistar hjá Heimilisiðnaðarfélaginu eru að springa, ekki síður frá karlmönnum. Í fréttatilkynningu frá Þjóðminjasafninu segir:

„Við búumst við fullu húsi af fólki í sínu fínasta pússi og hvetjum öll til að mæta í þjóðbúning sinnar þjóðar eða þá mæta og sækja innblástur fyrir sinn framtíðar þjóðbúning. Norski þjóðbúningurinn fær að deila sviðsljósinu með þeim íslenska í tilefni þess að hann er kominn á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf.

Stór hluti Norðmanna fara í þjóðbúning (bunad) á þjóðhátíðardaginn og það er frábær þróun að það stefni í að það færist í aukana hjá okkur líka. Það verður fyrirlestur um norska þjóðbúninginn, ókeypis leiðsögn um safnið með áherslu á sögu íslenska þjóðbúningsins og þjóðdansar.“

Það var líf og fjör á Þjóðbúningadaginn í fyrra.Aðsend

Hverjum þjóðbúning fylgir sérstök stemning

Kristín Vala hjá HFÍ segist hafa orðið vör við heilmikla aukningu á eftirspurn eftir þjóðbúninganámskeiðum.

„Við höfum þurft að bregðast við með því að bæta við námskeiðum og kennum núna þjóðbúninganámskeið flest kvöld vikunnar, auk dagnámskeiðs.“

Sjálf hefur hún saumað nokkra þjóðbúninga, sem eru fjölbreyttir, og á nánast einn fyrir hvert tilefni.

„Hverjum búning fylgir sérstök stemning; ég á 18. aldar faldbúning þegar ég er innan um annað þjóðbúningaklætt fólk eða 19. aldar upphlut. Þá finn ég fyrir mikilli tengingu við formæður mínar.

Þegar ég er í partý-gír með fólki sem annað hvort á búning eða ekki vel ég 20. aldar upphlutinn minn. Ég á hvíta skyrtu og ljósa svuntu fyrir skírn eða veislur á daginn, en svart sett fyrir kvöldskemmtanir.

20. aldar upphluturinn er skemmtilegur að því leyti að hægt er að gera hann að „sínum“, til dæmis með því að velja skemmtilega liti í skyrtu og svuntur, jafnvel flott munstur.

Ömmur okkar um miðja síðustu öld voru duglegar að sauma úr glitrandi lúrex-efnum, glansandi satíni í alls kyns litum og sumar áttu jafnvel upphlutssett með hlébarðamunstri.

Auðvitað fylgja búningnum einhverjar hefðir, en hann hefur líka tekið breytingum með tískunni eins og allt annað.“

Heiðrar minningu kvenna sem á undan komu

En hver ætli sé eiginlega munurinn á upphlut og peysufötum?

„Það er meira silfur á upphlutnum, sem er reimaður saman með silfurkeðju í gegnum silfurmillur, sem geta líka verið gylltar. 

Peysufötin eru þröngt sniðin peysa með slifsi bundið um hálsinn. Slifsið getur verið allavegana á litin, með kögri eða án, í stíl við svuntuna eða ekki. Þau geta því verið alveg jafn fjölbreytt og upphluturinn.“

Aðspurð hvað henni finnst mikilvægast að hafa í huga þegar það kemur að þjóðbúningnum segir Kristín Vala:

„Fyrir mér er mikilvægast að muna að með því að klæðast faldbúningi, upphlut eða peysufötum er ég að heiðra minningu kvennanna sem komu á undan mér. 

Fyrir mér snúast þjóðbúningar alls ekki neitt um þjóðerni, heldur um væntumþykju til ömmu, langömmu og langalangömmu sem lögðu mikið á sig til að eignast fallegt silfur og fínar svuntur.“

Endist út ævina og lengur

Hún segir almennt lítið um duldar þýðingar og merkingar í þjóðbúningunum.

„Ekki nema hjá „nýju“ þjóðbúningunum sem Sigurður Guðmundsson málari hannaði í kringum 1860 ásamt hópi vinkvenna sinna. 

Skautbúningurinn og kyrtillinn eru með tilvísanir í íslenska náttúru, en gömlu búningarnir voru skreyttir með því sem þótti fallegast, án þess að nein sérstök merking væri þar á bak við.“

Hægt er að læra að sauma eigin þjóðbúning og endist hann lengur en lífið.HFÍ

Þá eru eflaust margir að velta fyrir sér hvar sé best að verða sér úti um almennilegan þjóðbúning.

„Sum okkar eru heppin að eiga ömmur eða langömmur sem áttu búning sem gæti passað á okkur með smá breytingum. En flest förum við þá leið að sækja námskeið í þjóðbúningasaum, til dæmis hjá Heimilisiðnaðarfélaginu.

Þar er maður leiddur áfram af kennara með sérmenntun og fær ráðgjöf í efnis- og litavali. Það er líka svo skemmtilegt að sauma saman í hóp og í lokin að útskrifast með fallegan og vandaðan búning sem mun endast manni út ævina og lengur ef út í það er farið,“ segir Kristín Vala létt í bragði að lokum.

Hér má kynna sér viðburð Þjóðminjafélagsins betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.