Innlent

Þrjá­tíu þúsund fengu hærri líf­eyri í dag en síðustu mánaða­mót

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Lovísa Arnardóttir skrifa
Huld Magnúsdóttir er forstjóri Tryggingastofnunar.
Huld Magnúsdóttir er forstjóri Tryggingastofnunar. Silla Páls

Nýtt örorku-og endurhæfingarkerfi mun stórbæta kjör lífeyrisþega að sögn forstjóra Tryggingastofnunar. Hátt í þrjátíu þúsund manns fengu greiddar hærri lífeyri í morgun en síðustu mánaðamót. Glænýtt frítekjumark fyrir hlutaörorkulífeyrisþega er 350.000 krónur.

Í dag tóku gildi stærstu breytingar sem gerðar hafa verið á örorku- og endurhæfingarkerfinu undanfarna áratugi. Í tilkynningu frá Félags- og húsnæðiráðuneytinu segir að í nýju kerfi eigi að líta til þess hvað fólk getur í stað þess að einblína á hvað það getur ekki. Þar kemur einnig fram að nýja kerfið sé einfaldara, greiðslur hækki og að dregið sé úr tekjutengingu. Þá er fólki gert auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði vilji það gera það. Þá er í þessu nýja kerfi einnig að finna aukinn stuðning við fólk í endurhæfingu og lögð áhersla á að koma í veg fyrir að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat.

Breytingar á kerfinu gera það að verkum að um 95 prósent þeirra sem hafa þegið örorkulífeyri fá hærri greiðslur. Tryggingastofnun greiddi þannig í dag 1,2 milljarði meira til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega en um síðustu mánaðarmót.

Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, leggur áhersla sé á að hver einstaklingur fái þjónustu við hæfi og að meiri samfella og skilvirkni verði í þjónustu.

„Það kemur nýtt greiðslukerfi og með því koma nýir greiðsluflokkar. Svo kemur nýtt samþætt sérfræðimat í stað núgildandi örorkumats. Svo verða sett á samhæfingarkerfi um allt land sem verða hugsuð fyrir endurhæfingu og svo er í grunninn búin til þjónustugátt sem í grunninn er svona vinnutæki fagfólks sem er í samhæfingarteymi.“

Hækkun fari eftir aðstæðum

Hún segir hækkun greiðslna fara eftir aðstæðum hvers og eins.

„Fyrsta greiðslan var gerð í morgun og hjá flestum hækkaði greiðslan. Það þýðir að þeir sem voru með örorkulífeyri og færðust inn í nýja kerfið eru komnir með varanlegt örorkumat. Sumir hækka kannski um fimm þúsund krónur og aðrir um þrjátíu þúsund krónur og svo framvegis.“

Í nýja kerfinu er einnig boðið upp á hlutaörorkulífeyri fyrir þá sem eru í hlutastarfi.

„Hann er hugsaður fyrir þá sem hafa getu og möguleika á virkni á vinnumarkaði. Þar er frítekjumark tekna mun hærra en við höfum séð í greiðsluflokkum áður og þá getur fólk farið í hlutastörf og ef það er ekki í starfi nú þegar en vill vinna þá fær það aðstoð frá Vinnumálastofnun við það,“ segir Huld.

Hreiðar Ingi Eðvarðsson, aðstoðarmaður Ingu Sæland og Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra. Vísir/Berghildur

Í tilkynningu ráðuneytisins um breytingarnar kemur fram að 95 prósent þeirra sem hafa verið með örorkulífeyri fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Fólk sem lækki í nýja kerfinu sé með háar lífeyrissjóðstekjur á mánuði og þeir sem verði með sömu greiðslur séu þeir sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingakerfinu.

Manneskjulegra kerfi

„Nýtt kerfi er betra, manneskjulegra og sanngjarnara. Við tökum núna betur utan um fólkið okkar og þann mannauð sem í því býr. Aukningin til öryrkja eru 18.000 milljónir króna á ári sem eru mesta kjarabætur sem þessi hópur hefur fengið í áratugi. Ég þekki af eigin raun hversu óréttlátt og flókið gamla kerfið var og er afar stolt á þessum tímamótum,“ er haft eftir Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, í tilkynningunni.

Fjölmennt var á fundinum í Grósku í morgun. Vísir/Berghildur

Þá segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, nýja kerfið veita fólki sem vill fara út á vinnumarkað stóraukna möguleika og Vigdís Jónsdóttir forstjóri Virk segir nýjar greiðslur tryggja afkomu fólks á erfiðum tímum.

„Það skiptir gríðarlegu máli. Í nýja kerfinu er líka aukinn sveigjanleiki sem mætir betur fjölbreyttum þörfum einstaklinga í endurhæfingu,“ segir Vigdís.

„Nýja kerfið einfaldar verulega líf skjólstæðinga heilsugæslunnar. Ótti fólks um að detta á milli í kerfinu hefur verið áþreifanlegur en nú vinna þjónustuaðilar markvisst saman í gegnum samhæfingarteymi og mynda net utan um þau sem þess þurfa,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í undirbúningi í meira en ár

Í tilkynningunni segir að Alþingi hafi samþykkt lög um þetta nýja kerfi í júní 2024. Frá því hafi umfangsmikill undirbúningur staðið yfir síðan. Meðal nýmæla í þessu nýja kerfi sé samþætt sérfræðimat, samhæfingarteymi, virknistyrkur, nýjar greiðslur og hlutaörorkulífeyrir. Hægt er að sjá nánari útskýringar á vef Tryggingastofnunar um einstaka þætti breytinganna.


Tengdar fréttir

Konur með örorkulífeyri líklegri til að vera þolendur ofbeldis

Konur sem eru einhleypar, hafa verið í krefjandi vinnu, þolendur ofbeldis og í erfiðri fjárhagsaðstæðum eru líklegri til að vera með örorkulífeyri samkvæmt nýrri skýrslu. Sextíu prósent kvenna með örorkulífeyri eru yfir fimmtíu ára gamlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×