Bournemouth stöðvaði sigur­göngu Tottenham og Grealish á­fram í stuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bournemouth fagna marki Evanilson.
Bournemouth fagna marki Evanilson. EPA/TOLGA AKMEN

Bournemouth varð í dag fyrsta liðið til að vinna Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og Jack Grealish átti tvær stoðsendingar í öðrum leiknum í röð þegar Everton sótti þrjú stig á heimavöll Úlfanna.

Tottenham hafði unnið tvo fyrstu leikina sína, þar af 2-0 sigur á City í síðasta leik en tókst ekki að fylgja því eftir í dag. Tottenham tapaði 1-0 á móti Bournemouth á heimavelli sínum.

Evanilson kom Bournemouth í 1-0 eftir sendingu Marcos Senesi strax á fimmtu mínútu. Það reyndist vera eina mark leiksins. Bournemouth tapaði fyrsta leik sínum á Anfield en hefur unnið báða leikina sína síðan.

Everton fylgdi eftir sigri á Brighton með 3-2 útisigri á Wolves. Úlfarnir hafa tapað þremur fyrstu leikjum sínum og fengið á sig átta mörk.

Jack Grealish lagði upp mark fyrir bæði Beto og Kiernan Dewsbury-Hall en hann átti einnig stóran þátt í marki Iliman Ndiaye sem kom eftir stoðsendingu Dewsbury-Hall. Hee-Chan Hwang jafnaði metin í 1-1 og David Møller Wolfe minnkaði muninn í 3-2 þegar ellefu mínútur voru til leiksloka.

Nýliðarnir í Sunderland unnu aftur á móti dramatískan 2-1 endurkomusigur á Brentford.

Wilson Isidor skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótatíma. Jordan Henderson heimsótti uppeldisfélagið sitt en fór stigalaust til baka.

Það var búið að dæma mark af Brentford og liðið var búið að klúðra vítaspyrnu þegar Igor Thiago kom þeim yfir á 77. mínútu. Enzo Le Fee jafnaði aftur á móti metin átta mínútum fyrir leikslok með marki úr vítaspyrnu. Sunderland sótti hins vegar sigurinn í lokin og náði inn sigurmarki á síðustu stundu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira