Innlent

Eldur kviknaði út frá glerkúlu í glugga­kistu

Árni Sæberg skrifar
Eldur getur kviknað út frá ótrúlegustu hlutum, þar á meðal sólarljósi. Myndin sýnir slökkviliðsbíl og er úr safni.
Eldur getur kviknað út frá ótrúlegustu hlutum, þar á meðal sólarljósi. Myndin sýnir slökkviliðsbíl og er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við því að vanmeta íslenska sólarljósið, sem geti sannarlega kveikt eld inni í húsum við ákveðnar aðstæður. Til að mynda hafi eldur nýverið kviknað vegna vatnsfylltrar glerkúlu í gluggakistu húss í Reykjavík.

„Nýverið kviknaði eldur í húsi í Reykjavík þar sem eldsupptök voru með slíkum hætti að ástæða er til að vara við þeim. Þetta var á sólskinsdegi, en vatnsfyllt glerkúla var í glugga hússins og á hana skein sólin. Við það myndaðist brennipunktur á hillu, rétt innan við gluggakistuna, sem á var tuska og í framhaldinu kviknaði í henni,“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook.

Í þessu tilviku hafi farið frekar vel og ekki mikið tjón hlotist af eldinum, en mál sem þetta komi annað slagið á borð lögreglu, sem rannsaki eldsupptök þegar svo ber undir.

Þá segir frá öðru máli af sama toga þar sem sól hafi skinið inn um glugga húss og á snyrtispegil á sófaborði og við það hafi brennipunktur myndast í setu stóls í herberginu. Úr hafi orðið eldur, sem hafi blessunarlega koðnað niður, en þar hafi allir gluggar verið lokaðir á mannlausu heimili.

„Fólk er því minnt á að vanmeta ekki íslenska sólarljósið, sem getur sannarlega kveikt eld við ákveðnar aðstæður. Og huga að hlutum í gluggum og innan þeirra í þessu samhengi þar sem eldhætta getur orðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×