Innlent

Óttuðust um ferða­menn sem sátu fastir í Markar­fljóti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ferðamenn á sendibíl fóru yfir varnargarð og enduðu út í Markarfljóti.
Ferðamenn á sendibíl fóru yfir varnargarð og enduðu út í Markarfljóti. Landsbjörg

Í morgun voru björgunarsveitirnar Dagrenning á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitin á Hellu kallaðar út á mesta forgangi vegna tilkynningar um bíl með fimm manns um borð sem var fastur í Markarfljóti rétt við Gilsá á Emstruleið.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að bílnum hafi verið ekið af leið með þeim afleiðingum að hann fór út í Markarfljót sem nú er mjög vatnsmikið. Þar sat bílinn fastur samkvæmt tilkynningu og tók að skríða niður ána. Á sama tíma var í landi fólk sem treysti sér ekki til að koma farþegum bílsins til aðstoðar og var óttast um öryggi þeirra um tíma.

Fimm voru í bílnum. Ekki þótti öruggt við björgun að ná bílnum upp en fólkinu var bjargað. Landsbjörg

Björgunarfólk fór því á mesta forgangi inn Emstruleið og þegar þau komu á staðinn var vörubíl björgunarsveitar ekið út í ána og fólkinu bjargað úr bílnum og flutt í land. Aðstæður voru þannig að ekki var talið óhætt að reyna að koma bílnum upp úr ánni á þeim tímapunkti. Samkvæmt tilkynningu var fólkinu því komið í land og gat það það haldið áfram för sinni með samferðarfólki sínu eftir að sjúkraflutningamenn skoðuðu þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×