Innlent

Til skoðunar að flytja Sjálf­stæðis­flokkinn úr Val­höll

Árni Sæberg skrifar
Valhöll hefur lengi hýst Sjálfstæðisflokkinn.
Valhöll hefur lengi hýst Sjálfstæðisflokkinn. Vísir/Einar

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins samþykkti í gærkvöldi tillögu Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns flokksins, um að skipa þriggja manna húsnæðisnefnd til þess að skoða framtíðartilhögun húsnæðismála flokksins. Heimildir Vísis herma að til skoðunar sé að flytja höfuðstöðvar flokksins úr Valhöll.

Í bréfi sem sent var flokksmönnum segir að þau Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, Þórir Kjartansson, framkvæmdastjóri Íslenskrar fjárfestingar, og Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður og eigandi á Lex, hafi verið skipuð í nefndina.

„Aðgerðin er einn liður í víðtækri endurskoðun á starfsemi flokksins með það að markmiði að efla innviði hans og tryggja honum styrk og slagkraft til framtíðar,“ er haft eftir Guðrúnu í tilkynningunni.

Sem áður segir herma heimildir Vísis að til skoðunar sé að flytja höfuðstöðvar flokksins úr Valhöll við Háaleitisbraut en þaðan hefur flokknum verið stýrt í áratugi. Húsið var byggt sérstaklega undir starfsemi flokksins árið 1975 en þar hefur ýmis önnur starfsemi einnig verið rekin. Þó hefur engin ákvörðun verið tekin í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×