Innlent

„Starf­semi sem þarf auð­vitað bara að stoppa"

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Árni Guðmundsson formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum segir jákvætt að löggjafinn sé loks að bregðast við.
Árni Guðmundsson formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum segir jákvætt að löggjafinn sé loks að bregðast við. Vísir/Arnar

Stöðva þarf áfengissölu á netinu að mati formanns foreldrasamtaka sem fagnar því að ákært hafi verið fyrir netsölu áfengis á Íslandi. Þetta hafi mikla þýðingu sér í lagi nú þegar unglingadrykkja er að aukast.

Greint var frá því fyrir helgi að framkvæmdastjóri íslenska hluta Smáríkisins hefði verið ákærður fyrir brot á áfengislögum en málið verður þingfest þann 3. september í Héraðsdómi Reykjaness. Fyrirtækið hefur í nokkur ár boðið fólki að kaupa áfengi á netinu og fá sent heim.

Þetta er í fyrsta sinn sem ákært er fyrir smásölu áfengis hér á landi til einstaklinga á netinu. Samkvæmt íslenskum lögum er innflutningur áfengis til einkanota og heildsölu leyfilegur á Íslandi en ekki til smásölu.

Árni Guðmundsson formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum telur algjörlega skýrt að þau fyrirtæki sem hafa rekið netverslanir sem selja áfengi síðustu ár hafi brotið lög.

„Þetta fyrirkomulag sem hefur tíðkast hér til margra ára og loksins á að fara að taka á er bara smásölufyrirkomulag í sinni tærustu mynd. Þetta er bara netsala í gegnum smásölufyrirkomulag. Þess vegna finnst mér mjög sérkennilegt þegar þetta byrjaði að það hafi ekki verið gripið inn í þetta strax.“

Mikilvægt sé að lögreglan sé nú loksins að bregðast við.

„Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu. Vegna þess að þetta er starfsemi sem þarf auðvitað bara að stoppa og það að þetta sé komið núna er auðvitað fagnaðarefni. Við hefðum bara viljað sjá þetta miklu miklu miklu fyrr.“

Árni og samtök hans hafa barist ötullega gegn netverslun með áfengi. Til að vekja athygli á málinu kærði meðal annars Árni sjálfan sig fyrir að kaupa áfengi hjá netverslun. Mál hans er í skoðun hjá lögreglunni.

Hann segir um mikilvægt lýðheilsumál að ræða og vonar að tekið verði harðar á málum sem þessum.

„Aukin sala áfengi leiðir auðvitað til aukinnar neyslu og viðkvæmustu hóparnir eru auðvitað börn og ungmenni þegar svona hlutir eru. Við státum af íslensku forvarnarmódeli sem er gott en við sjáum hins vegar aukna áfengisneyslu unglinga í dag og það er auðvitað einn angi af því þessi ofboðslega markaðssókn auglýsingar og aukið framboð á áfengi. Það er bara ekki flóknara en það.“


Tengdar fréttir

Kærir sjálfan sig til lögreglu

Árni Guðmundsson hefur gefið sig fram við laganna verði og játar brot sitt gagnvart áfengislöggjöfinni undanbragðalaust. Hann segist sekur um að hafa keypt áfengi ólöglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×