Sport

Tugir hjóla frá Siglu­firði til Dal­víkur í nýrri fjallahjólakeppni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Flestir keppendur eru erlendir. 
Flestir keppendur eru erlendir.  Aðsendir

The Rift MTB, ný fimm daga fjallahjólakeppni, fer fram á á Norðurlandi frá miðvikudegi til sunnudags. Keppt er í tveggja manna liðum þar sem hjólað er í gegnum fjölbreytt landslag Norðurlands. Alls taka 80 keppendur þátt í 40 liðum. Keppnin er skipulögð af Lauf Cycles í samstarfi við fjölmarga innlenda og erlenda aðila.

Í tilkynningu kemur fram að hjólaleiðirnar liggi um grýtta stíga Eyjafjarðar og Vaðlaheiðar, frá Siglufirði yfir á Dalvík og Mývatnssveit til Húsavíkur. Þar kemur einnig fram að þó svo að keppnin sé haldin í fyrsta skipti í ár leggi keppendur leið sína frá Taívan, Bandaríkjunum og Evrópu og að sjálfsögðu frá Íslandi.

„The Rift MTB er einstakt tækifæri fyrir bæði innlenda og erlenda hjólamenn til að kynnast Íslandi á sinn eigin einstaka máta í fallegri náttúru,“ segir Dana Rún Hákonardóttir, markaðsstjóri Lauf Cycles og skipuleggjandi keppninnar.

Hér má sjá eina hjólaleiðina frá Siglufirði og yfir til Dalvíkur. Aðsend

„Eftir að hafa byggt upp The Rift sem alþjóðlegt vörumerki í heimi malarhjólreiða langaði okkur til að taka fjallahjólin á næsta stig“.

The Rift fór fram á Hvolsvelli 19. júlí og var það í sjötta skiptið sem keppnin fór fram. Alls tóku þúsund hjólreiðamenn þátt í keppninni. Ingvar Ómarsson og Hafdís Sigurðardóttir hlutu Íslandsmeistaratitilinn í ár en fyrsta sinn var The Rift líka með Íslandsmeistarakeppnina í gravel-hjólreiðum.

Hjólað er í miserfiðu landslagi. Aðsend

Hin Þýska Rosa Maria Klöser vann keppnina í kvennaflokki og danski Magnus Bak Klaris í karlaflokki.

Dana segir að um þrjú þúsund manns hafi sótt keppnina á Hvolsvelli í sumar og að um 90 prósent keppenda hafi komið erlendis frá. Keppendur hjóluðu annað hvort 140 eða 200 kílómetra við Heklurætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×