Sport

Hálf­fimm­tug Venus með eftir­minni­lega endur­komu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Endurkomu Venus Williams á risamót var beðið með mikilli eftirvæntingu. 
Endurkomu Venus Williams á risamót var beðið með mikilli eftirvæntingu.  epa/BRIAN HIRSCHFELD

Hin 45 ára Venus Williams keppti í fyrsta sinn á risamóti í tvö ár þegar hún laut í lægra haldi fyrir Karolinu Muchovu í 1. umferð Opna bandaríska meistaramótsins í tennis.

Venus er elsti keppandinn í einliðaleik á Opna bandaríska síðan Renee Richards keppti á mótinu 1981, þá 47 ára.

Þrátt fyrir að vera sextán árum eldri en Muchová, sem situr í 11. sæti heimslistans, lét Venus þá tékknesku hafa fyrir hlutunum.

Venus hefur glímt við veikindi undanfarin ár en hún greindist með Sjögrens heilkennið og vöðvahnúta í legi. Venus segist líða betur um þessar mundir og eftir leikinn í gær rifjaði hún upp sársaukann sem hún upplifði þegar hún keppti við Muchovu á Opna bandaríska fyrir fimm árum.

„Mér leið ekki vel. Ég var svo verkjuð. Munurinn á mér núna er eins og nótt og dagur. Ég er svo þakklát að hafa fengið tækifæri til að líða betur,“ sagði Venus.

Áhorfendur á Arthur Ashe vellinum í New York voru greinilega á bandi Venusar sem átti góða kafla í viðureigninni þrátt fyrir erfiða byrjun.

Aðspurð um frekari spilamennsku útilokaði Venus ekki neitt en taldi þó ólíklegt að hún myndi keppa utan Bandaríkjanna.

Venus hefur unnið sjö risatitla á ferlinum; Wimbledon fimm sinnum og Opna bandaríska tvisvar sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×