Sport

Fjár­magnar tennis­ferilinn á On­lyFans

Siggeir Ævarsson skrifar
Sachia Vickery er til í að gera næstum hvað sem er fyrir frægðina, nema kannski að koma nakin fram
Sachia Vickery er til í að gera næstum hvað sem er fyrir frægðina, nema kannski að koma nakin fram EPA/Francisco Guasco

Þrátt fyrir að hafa halað inn yfir tvær milljónir dollara í verðlaunafé á ferlinum ákvað Sachia Vickery að drýgja tekjurnar á OnlyFans. Vickery meiddist á öxl árið 2018 og var frá keppni í sex mánuði og leitaði þá nýrra leiða til að draga björg í bú.

Þegar Vickery var upp á sitt besta var hún í 73. sæti á heimslistanum en í dag nær hún ekki á topp 550. Sjálf vill hún meina að tvær milljónir dollara dugi skammt fyrir atvinnufólk í tennis.

„Tvær milljónir eru ekki neitt þegar kemur að tennis. Ég eyddi yfir 100.000 í þjálfara, líkamsrækt, sjúkraþjálfara, endurhæfingu, sneiðmyndatökur - Fólk sér ekki þennan hluta.“

Hún bætti við að þessi nýja tekjulind væri ákveðið öryggisnet og gæfi henni í raun mikið fjárhagslegt frelsi.

„Að hafa öryggisnet, aukavinnu og þéna vel í henni, það skemmir ekki fyrir. Það hefur gefið mér mikið fjárhagslegt frelsi og raunar fjármagnað allan minn tennisferil.“

Í samtali við CNN vildi Vickery ekki segja nákvæmlega hversu mikið hún hefur þénað í gegnum OnlyFans en hún hefði náð í sex stafa tölu strax á fyrstu þremur mánuðunum og væri sennilega búinn að þéna meira þar en hún hefur unnið í verðlaunafé í tennis. Þá bætti hún við að talan væri bara á leiðinni upp.

Þess má til gamans geta að mánaðaráskrift hjá Vickery á OnlyFans kostar 12,99 dollara eða rétt um 1.600 íslenskar krónur. Hún tekur sérstaklega fram að hún sé ekki klámstjarna, muni ekki koma fram allsnakin, fari ekki á stefnumót með áskrifendum en hún svari öllum skilaboðum sjálf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×