Sport

„Nei, þetta var örugg­lega ég að spýta á þig“

Sindri Sverrisson skrifar
Iga Swiatek tapaði ekki einu einasta setti á Cincinnati Open.
Iga Swiatek tapaði ekki einu einasta setti á Cincinnati Open. Getty/Robert Prange

Pólska tennisstjarnan Iga Swiatek lét vægast sagt furðuleg ummæli spyrils í viðtali ekki trufla sig á leið sinni að sigri á Cincinnati Open mótinu um helgina.

Hin 24 ára gamla Swiatek vann Jasmine Paolini frá Ítalíu í úrslitaleiknum, 7-5 og 6-4, og fer því full sjálfstrausts inn í Opna bandaríska mótið sem hefst á sunnudaginn.

Í undanúrslitunum vann hún Elenu Rybakina og var gripin í viðtal þar sem skringileg ummæli féllu, eins og sjá má hér að neðan.

Swiatek ætlaði að fara að svara spurningu en stoppaði viðtalið því henni fannst eins og að hún hefði fengið á sig regndropa. Þá sagði spyrillinn:

„Nei, nei, nei, þetta var örugglega ég að spýta á þig þegar ég var að spyrja þig.“

Swiatek, sem er í þriðja sæti heimslistans, var ekkert að kippa sér upp við þetta og sagðist einfaldlega hafa talið siga hafa heyrt í þrumum en hélt svo áfram með viðtalið.

Eins og fyrr segir vann hún svo sigur á mótinu og tapaði raunar ekki setti á öllu mótinu, sem gefur góð fyrirheit fyrir síðasta risamót ársins. Swiatek vann Wimbledon-mótið í síðasta mánuði.

„Ég er ánægð með vinnuna hjá mér, hvernig hlutirnir hafa þróast. Ég er líka ánægð með að hafa ekki tapað setti. Ég er góður spilari og get spilað á hvaða undirlagi sem er,“ sagði Swiatek eftir mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×