Erlent

Þing­maður sagður hafa svipt sig lífi í finnska þing­húsinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Eemeli Peltonen var á sínu fyrsta kjörtímabili sem þingmaður finnskra jafnaðarmanna þegar hann lést skyndilega.
Eemeli Peltonen var á sínu fyrsta kjörtímabili sem þingmaður finnskra jafnaðarmanna þegar hann lést skyndilega. Af vefsíðu Emeeli Peltonen

Þingmaður Jafnaðarmannaflokksins lést í finnska þinghúsinu í Helsinki í dag. Finnskir fjölmiðlar segja að þingmaðurinn hafi svipt sig lífi. Forsætisráðherrann segir fréttirnar sláandi.

Eemeli Peltonen, þingmaður Jafnaðarmannaflokksins, var þrítugur þegar hann lést. Finnska ríkisútvarpið segir að lögregla hafi verið kölluð til klukkan 11:06 að staðartíma, klukkan 8:06 að íslenskum tíma. Lögregla segir dauðsfallið til rannsóknar en ekki leiki grunur á að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.

Götublaðið Iltalehti fullyrðir að Peltonen hafi svipt sig lífi í þinghúsinu. Aaro Toivonen, yfirmaður öryggismála finnska þingsins, segir ríkisútvarpinu að hann neiti þeim fréttum ekki. Þingið er í sumarfríi eins og stendur.

Vert er að taka fram að í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fó lki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar 1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og símann hjá  Pieta-samtökunum, 552-2218, sem er opinn allan sólarhringinn.

Petteri Orpo, forsætisráðherra, staðfesti andlát Peltoen þegar hann ræddi við blaðamenn í Kajaani í miðju Finnlandi þar sem þinghópur hans er saman kominn til árlega fundarhalda.

„Fyrir nokkru fengum við virkilega sláandi fréttir af þingi, sameiginlegum vinnustað okkar. Einn starfsbræðra okkar lést í húsakynnum þingsins. Þetta eru mjög sorglegar fréttir,“ sagði Orpo sem sendi fjölskyldu Peltonen og starfsfélögum samúðarkveðjur.

Peltonen er sagður hafa glímt við veikindi og verið í veikindaleyfi frá því í lok vors. Hann sagði sjálfur frá því á samfélagsmiðli í júní að hann væri nýrnaveikur.

Sanna Marin, fyrrverandi leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins og forsætisráðherra, vottaði Peltonen virðingu sína á samfélagsmiðlinum Instagram.

„Ég man etir þér fyrir mörgum árum frá því að við vorum saman í ungliðahreyfingunni og flokknum. Ég vildi að þú værir enn með okkur. Líf þitt endaði of fljótt,“ skrifaði Marin til Peltonen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×