Erlent

„Því miður vantar enn­þá ansi mikið“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Albert Jónsson segir fundinn sem slíkan hafa verið góðan, en litlar líkur séu á að vopnahlé komist á. Rússar muni ekki samþykkja þær öryggistryggingar sem ræddar hafi verið til handa Úkraínu, og þar strandi málið.
Albert Jónsson segir fundinn sem slíkan hafa verið góðan, en litlar líkur séu á að vopnahlé komist á. Rússar muni ekki samþykkja þær öryggistryggingar sem ræddar hafi verið til handa Úkraínu, og þar strandi málið. Vísir/Vilhelm

Sérfræðingur í alþjóðamálum segir fund Donalds Trump Bandaríkjaforseta með forseta Úkraínu og öðrum leiðtogum Evrópuríkja hafa verið ágætan, en hann hafi skilað litlum árangri. Allt strandi á afstöðu Rússlands gagnvart vopnahléi og öryggistryggingum, sem hafi ekkert breyst, þrátt fyrir fundi.

Fundi Selenskís með Trump og fjölda Evrópuleiðtoga hefur verið lýst sem góðum, en fátt er þó fast í hendi eftir hann. Fyrrverandi sendiherra í Rússlandi -og Bandaríkjunum tekur undir að fundurinn hafi verið góður, en engin grundvallarbreyting hafi orðið á afstöðu Rússa til vopnahlés eða stríðsloka í Úkraínu.

„Þeir vilja ekki vopnahlé. Þeir vilja viðræður og samninga, og svo vopnahlé. Það er bara klassískur tafaleikur. Það er endalaust hægt að teygja þann lopa á meðan Rússar vonast til að ná meiri árangri á vígvellinum í Úkraínu,“ segir Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra.

Rússar þvertaki fyrir friðargæslu

Því virðist þó öfugt farið, þar sem Rússar séu að tapa fótfestu í Donbass-héröðum, austast í Úkraínu.

Umræða um öryggistryggingar var fyrirferðarmikil á fundi gærdagsins, sem gæti falist í viðveru NATO-hermanna eða friðargæsluliðs í Úkraínu.

„Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, María Sakarova, hún hafnar þessu algjörlega í morgun. Það er heldur ekki nýtt. Hún segir: Það kemur ekki til greina neinir hermenn, frá neinu NATO-ríki, inni í Úkraínu.“

Viljinn til staðar hjá Vesturlöndum

Sú afstaða komi ekki á óvart, í ljósi áhuga Rússa á að gera Úkraínu að ríki innan áhrifasvæðis síns.

„Þú samþykkir ekki erlenda hermenn inn á áhrifasvæði þitt, er það? Þannig að því miður vantar ennþá ansi mikið. En viljinn er til staðar hjá bæði Bandaríkjaforseta og Evrópuríkjunum að koma einhverju í gang. Það er augljóst. En það rekst, sem fyrr, á það að kröfur Rússa og markmið hafa bara ekki tekið breytingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×