Enski boltinn

Rasistinn í hjóla­stólnum bannaður ná­lægt öllum fót­bolta­völlum á Eng­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi 47 ára maður var handtekinn og má ekki kom nálægt fótboltavöllum á næstunni.
Þessi 47 ára maður var handtekinn og má ekki kom nálægt fótboltavöllum á næstunni. Skjámynd/@BPINewsOrg

47 ára gamall maður sem gerðist sekur um alvarlegt kynþáttaníð gagnvart Antoine Semenyo hjá Bournemouth í leiknum á móti Liverpool á Anfield á föstudaginn hefur verið settur í bann.

Anthony Taylor, dómari leiksins stöðvaði leikinn eftir að hann heyrði af atvikinu sem var í fyrri hálfleik. Semenyo kom til hans og lét hann vita.

Taylor ræddi við báða knattspyrnustjórana og fékk það síðan á hreint frá Semenyo sjálfum hver sökudólgurinn væri. Hann benti síðan öryggisvörðunum á Anfield á manninn.

Leik var síðan haldið áfram eftir nokkrar mínútur en rasistinn, sem var í hjólastól, var síðan keyrður út af vellinum í hálfleik og fluttur í fangageymslu.

Merseyside lögreglan sagði að maðurinn sé nú laus gegn tryggingu en fékk aðeins að sleppa út úr fangelsinu með því að lofa einu. Mál hans fer síðan seinna fyrir dómara.

Hann má ekki koma nálægt fótboltavelli á Bretlandi á næstunni. Maðurinn verður að halda sig í 1,6 kílómetra (mílu) fjarlægð frá öllum fótboltaleikvöngum á Bretlandseyjum.

Antoine Semenyo svaraði fyrir þetta inn á vellinum með því að skora tvö mörk í síðari hálfleik og jafna leikinn. Liverpool náði seinna að skora tvö mörk og tryggja sér öll þrjú stigin. Hann var líka þakklátur fyrir skjót og góð viðbrögð eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×