Innlent

Samkeppniseftirlitið rann­sakar Storytel

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fyrirtækið Storytel verður rannsakað af Samkeppniseftirlitinu.
Fyrirtækið Storytel verður rannsakað af Samkeppniseftirlitinu. Vísir/Anton Brink

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að hefja formlega rannsókn á hendur fyrirtækinu Storytel. Til rannsóknar er hvort fyrirtækið hafi brotið gegn banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Undir nafninu Storytel eru tvö félög, annars vegar Storytel Iceland ehf. sem sér um rekstur streymisveitu fyrir hljóð- og rafbækur á Íslandi, og hins vegar Storyside AB sem gefur út bækur sem boðnar eru fram á streymisveitunni. Félögin tvö eru í eigu Storytel AB sem skráð er í Svíþjóð en fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að rannsóknin taki einnig til móðurfélagsins.

„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins mun í fyrsta lagi beinast að því hvort Storytel teljist markaðsráðandi, en fyrirtæki í slíkri stöðu hafa sérstökum skyldum að gegna um að grípa ekki til neinna aðgerða sem raskað geta samkeppni á markaði,“ segir í tilkynningu eftirlitsins.

„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins mun í fyrsta lagi beinast að því hvort Storytel teljist markaðsráðandi, en fyrirtæki í slíkri stöðu hafa sérstökum skyldum að gegna um að grípa ekki til neinna aðgerða sem raskað geta samkeppni á markaði.“

Tekið fyrir eftir kvörtun frá Rithöfundarsambandi Íslands

Ákveðið var að rannsaka Storytel eftir að kvörtun barst frá Rithöfundarsambandi Íslands um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í kvörtuninni segir að RSÍ telji að hljóðbækur sem gefnar eru út af Storyside auk annarra útgáfna tengdum fyrirtækinu sé forgangsraðað yfir aðrar bækur. Til að mynda séu hljóðbækur Storyside í sérstökum forgangi í framsetningu og efnisvali í streymisveitunni og fái þar af leiðandi meiri hlustun.

Í kvörtuninni kemur einnig fram að Storytel reyni að þvinga höfunda til að semja beint við Storyside frekar en aðra útgefundur og að Storytel „haædi tekjum innan samstæðunnar þar sem þóknar séu tengdar við hlustun.“

„Lýsing kvartanda á meintri háttsemi gefur tilefni til að rannsakað sé hvort um ólögmæta sjálfsforgangsröðun kunni að vera að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Íslenska eftirlitið hefur óskað eftir aðstoð hins sænska auk þess sem málið hefur verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunarinnar EFTA. Þrátt fyrir að formleg rannsókn sé hafin kemur fram í tilkynningunni að ekki sé komin niðurstaða um brot né vísbending um niðurstöðu rannsóknarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×