Fótbolti

Vill þjóðina upp á dekk: „Langt síðan við höfum átt al­vöru heima­völl“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Vísir/Sigurjón

Arnar Gunn­laugs­son, lands­liðsþjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta, segir það skipta öllu máli fyrir sitt lið að búa að góðum stuðningi í komandi undan­keppni HM eigi liðið að ná mark­miðum sínum. Stuðnings­menn Ís­land geti hjálpað liðinu gríðar­lega.

Í dag fór KSÍ af stað með mótsmiðasölu á heima­leiki Ís­lands í komandi undan­keppni en innan við mánuður er í fyrsta leik liðsins í þeirri keppni, heima­leik gegn lands­liði Azer­baíjan þann 5. septem­ber næst­komandi en auk Azer­baíjan er Ís­land í riðli með Frakk­landi og Úkraínu. Efsta lið hvers riðils tryggir sér sæti á HM í Bandaríkjunum á næsta ári. Liðið í öðru sæti fer í um­spil.

Miða­salan fer vel af stað og fram undan er fyrsti heima­leikur Ís­lands undir stjórn Arnars sem tók við stjórnar­taumunum hjá ís­lenska lands­liðinu í janúar fyrr á þessu ári. Hann spilaði sjálfur með ís­lenska lands­liðinu á sínum tíma, þekkir sögu liðsins vel og veit hversu miklu máli góður stuðningur getur skipt.

Klippa: „Skiptir öllu máli“

„Skiptir bara öllu máli,“ segir Arnar í sam­tali við íþrótta­deild. „Völlurinn er, eins og þið sjáið núna, orðinn glæsi­legur. Grasið nýtt og fal­legt, búið að búa til smá gryfju stemningu. Í minningunni, og það gæti vel verið að ég hafi rangt fyrir mér, en í minningunni er langt síðan að við höfum haft al­vöru heima­völl. Það hefur dofnað síðustu ár og maður finnur það svo vel, við höfum spilað þrjá erfiða úti­leiki í Kósóvó, Skot­landi og Norður Ír­landi, hvað þetta gefur liðum aukinn kraft.“

Ef Ís­land eigi að takast að komast á HM þurfi liðið áhorf­endur í lið með sér.

„Mér skilst að mótsmiða­salan hafi farið af stað í há­deginu og byrjað nokkuð vel þannig greini­lega er áhuginn til staðar. En betur má ef duga skal. Við þurfum bara að fylla völlinn, í hvert einasta skipti, til að eiga góða mögu­leika á að komast á HM í Bandaríkjunum.

Það jafnast ekkert á við upp­lifunina að koma á troðfullan Laugar­dals­völl. Til­finningin er sú að stuðnings­menn geti hrein­lega öskra inn mark fyrir okkur sem og öskrað til að koma í veg fyrir að við fáum á okkur mörk, gert aðkomulið skelkað. Þetta er ákveðin gryfja, lítill og þéttur völlur sem tekur ekki 60-70 þúsund manns en Laugar­dals­völlurinn, þegar að hann skartar sínu fegursta bæði inn á vellinum sem og í stúkunni, er sterkt vígi sem hefur hjálpað okkur. Við hefðum ekkert komist inn á þessi stór­mót án þess að hafa þennan skemmti­lega og þétta völl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×