Skoðun

Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitt­hvað annað?

Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skrifar

Nú er hinsegin dögum lokið þetta árið. Á hverju ári sameinast hinsegin fólk í ákalli um réttlátt, litríkt samfélag. Ég man fyrir nokkrum árum þar sem erlendar þjóðir öfunduðu okkur Íslendinga að vera komin svona langt í baráttu hinsegin fólks, eitthvað sem við vorum stolt af. Erum við á þeim stað í dag? Það er komið bakslag í baráttuna og af hverju er þetta ennþá barátta eftir öll þessi ár? Samkvæmt netheimildum var fyrsta baráttugangan haldin árið 1999 fyrir 26 árum síðan. Á þessu tímabili ætti margt að vera breytt og allir í okkar samfélagi ættu að geta fengið að vera eins og þeir eru. Á netmiðlum sést greinilega að þar er sterk hatursorðræða. Þar er fólk sem þykist vita betur en aðrir og úthúðar öllum þeim sem passa ekki inn í hinn hefðbundna kassa. Góð vinkona mín og hennar kona hafa lent í aðkasti tvö ár í röð á hinsegin dögum bara fyrir það að vera samkynhneigðar. Af hverju leyfir okkar íslenska samfélag ekki öllum að vera eins og þeir eru og elska þá sem þeir vilja sama hvers kyns þau eru?

Við í skólum landsins höfum einnig fundið fyrir þessu aukna bakslagi. Það er hópur barna sem tekur sig saman og talar niður til þeirra sem skera sig úr heildinni. Hvort sem það eru fullorðnir eða börn. Þau ganga eftir börnum eða fullorðnum og gelta á þau svo þau upplifi sig valdmeiri en aðrir. Það er auðvelt að tala aðra niður til að upphefja sjálfan sig. Viljum við búa í þannig samfélagi? Við í skólunum þurfum að berjast fyrir rétti allra þannig að allir fá að tilheyra, sama hvernig þeir eru. Það er erfitt þegar samfélagið er í svona miklu bakslagi.

Samtökin ´78 hafa gert fræðslusamning við sveitarfélög þar sem þau koma með fræðslu inn í skóla landsins. Öll stærri sveitarfélög landsins eru búin að gera samning við samtökin. Kópavogur er eftir og þarf að stíga sama skref og aðrir svo börn í sveitarfélaginu fái fræðslu um mannréttindi og jafnrétti. Öll börn eiga að fá að njóta sama réttar, að þau upplifi sig örugg. Með undirritun fræðslusamnings gefa sveitarfélög það út að þau styðja við öll börn. Fjölbreytileikinn er mikilvægur.

Við höfum heyrt að við séum að innræta börn og hafa áhrif á þau. Fræðsla er ekki innræting. Fræðsla stuðlar að vitundarvakningu. Fræðsla upplýsir nemendur um það málefni sem fræðslan snýr að. Fræðsla til nemenda er mikilvæg. Nemendur þurfa að fá að vita að það eru ekki allir eins. Við eigum að fá að vera eins og við erum en ekki vera eitthvað annað. Ár hvert þegar elstu nemendur skólans hjá mér útskrifast fá nemendur afhentar rósir. Rósirnar eru allar mismunandi á litinn og allar hafa sitt sérkenni. Þau skilaboð sem ég sendi með nemendum út í lífið er að rósirnar tákna þau sjálf. Það er enginn eins og það er mikilvægt að allir fá að vera eins og þeir eru og taki öðrum eins og þeir eru. Þau eiga að vera stolt af sér sjálfum.

Ekki vera sá sem úthúðar öðrum. Þú veist ekki hvort að barnið þitt, barnabarn, vinur eða náinn aðili sé trans eða hinsegin. Fólk sem þú elskar. Gættu orða þinna. Við viljum lifa öruggu lífi í okkar samfélagi og ekki vera niðurlægð. Við viljum samfélag þar sem náunginn sýnir okkur samkennd og virðingu, sama hver við erum. Viljum við ekki gera allt fyrir ástina eins og Páll Óskar syngur um. Út með hatrið. Inn með ástina.

Höfundur er skólastjóri Hörðuvallaskóla. 




Skoðun

Sjá meira


×