Körfubolti

Litáen of stór biti fyrir ís­lensku stelpurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jana Falsdóttir í leiknum gegn Hollandi.
Jana Falsdóttir í leiknum gegn Hollandi. FIBA

Íslenska U-20 ára landslið kvenna í körfubolta er úr leik á Evrópumótinu sem fram fer í Portúgal. Liðið mætti Litáen í 8-liða úrslitum og reyndist það of stór biti, lokatölur 96-76.

Litáen var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með 14 stiga mun þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 51-37. Ísland hafði tekist að koma til baka gegn Hollandi í 16-liða úrslitum en það var aldrei í myndinni í kvöld.

Litáen gjörsamlega gekk frá leiknum í 3. leikhluta og því breyti litlu þó Ísland hafi unnið 4. leikhluta með 13 stigum. Tap staðreynd og Ísland úr leik.

Kolbrún María Ármannsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 18 stig ásamt því að taka 9 fráköst og gefa eina stoðsendingu. Jana Falsdóttir skoraði 13 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Dzana Crnac og Emma Hrönn Hákonardóttir skoruðu 10 stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×