Erlent

Nýr for­seti Pól­lands vill draga úr á­hrifum ESB

Auðun Georg Ólafsson skrifar
Karol Nawrocki, varð í dag nýr forseti Póllands.
Karol Nawrocki, varð í dag nýr forseti Póllands. EPA/RADEK PIETRUSZKA

Karol Nawrocki, íhaldssamur sagnfræðingur og frambjóðandi þjóðernissinnaða stjórnarandstöðuflokksins Lög og réttlæti sór í morgun embættiseið sem nýkjörinn forseti Póllands. Sem slíkur hefur hann vald til að hafa áhrif á utanríkisstefnu og beita neitunarvaldi gegn lögum.

Nawrocki er fulltrúi þjóðernisíhaldsmanna í embætti rétti eins og forveri hans, Andrzej Duda, sem var forseti Póllands í tíu ár. Í forsetakosningunum, sem fram fóru í byrjun júní sl. naut Nawrocki stuðnings Donalds Trump forseta Bandaríkjanna. Nawrocki er sagður hliðhollur MAGA hreyfingu Trump og tala fyrir kólnandi sambandi við Úkraínu.

Pawel Bartoszek, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í samtali við Vísi í sumar að Nawrocki myndi beita neitunarvaldi forseta gegn ríkisstjórninni í hitamálum á borð við þungunarrof og gagnvart hinsegin fólki.

Í forsetakosningunum í sumar hlaut Nawrocki 50,89 prósent atkvæða og sigraði naumlega Rafal Trzaskowski, fyrrverandi borgarstjóra Varsjár, sem hlaut 49,11 prósent atkvæða.

Kosningasigur Nawrocki var sagt áfall fyrir vonir Donald Tusk forsætisráðherra um að festa frekara samstarf við Evrópusambandið í sessi. Nawrocki er sagður vilja draga úr áhrifum sambandsins og kallaði meðal annars eftir „fullveldi Póllands“ í embættistökunni í morgun. 

Nawrocki virðist strax ætla að valda ríkisstjórn Donald Tusk usla með því að leggja til aðgerðir eins og skattalækkanir sem líklega verða vinsælar hjá mörgum kjósendum en erfiðar í framkvæmd.

„Sem forsætisráðherra hef ég hingað til unnið með þremur forsetum, hvernig verður það með þann fjórða? Við munum ráða við það,“ skrifaði Tusk, í færslu á samfélagsmiðilinn X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×