Íslenski boltinn

Natasha með slitið krossband

Valur Páll Eiríksson skrifar
Natasha Moraa Anasi, leikmaður Vals, spilar ekki frekar á leiktíðinni.
Natasha Moraa Anasi, leikmaður Vals, spilar ekki frekar á leiktíðinni. Vísir/ Ernir Eyjólfsson

Landsliðskonan Natasha Anasi leikur ekki meira með Val á yfirstandandi leiktíð vegna meiðsla. Hún sleit krossband á dögunum og verður frá fram á næsta ár.

Natasha tók ekki þátt í 3-0 tapi Vals fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks í gærkvöld og sást á hækjum í stúkunni. Natasha meiddist í fyrsta leik Vals eftir EM-hléið, þar sem Valur vann 2-1 sigur á FHL þann 24. júlí síðastliðinn.

Matthías Guðmundsson, þjálfari Vals, greindi frá því í samtali við Fótbolti.net að Natasha hefði slitið aftara krossband og myndi af þeim sökum ekki spila meir í ár.

„Tash er alvarlega meidd og verður ekki meira með á þessu tímabili,“ segir Matthías við Fótbolti.net.

Natasha er lengst til hægri og spjallar við Katrínu Ásbjörnsdóttur, leikmann Breiðabliks, sem er á bakvið Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur, eftir leikinn í gærkvöld. Allar þrjár eiga þær sameiginlegt að vera frá vegna meiðsla.Sýn Sport

Natasha var hluti af landsliðshópi Íslands sem fór á EM í Sviss fyrr í sumar en mun ekki leika aftur fyrir landsliðið um hríð. Hún verður 34 ára gömul í október næst komandi.

Valur er í fimmta sæti Bestu deildar kvenna með 15 stig eftir tólf leiki. Liðinu hefur ekki vegnað eins illa í deildarkeppninni í fjöldamörg ár.

Nýlega steig Kristján Guðmundsson til hliðar sem þjálfari liðsins, en hann og áðurnefndur Matthías stýrðu liðinu saman. Í samtali við Sýn eftir leik gærkvöldsis segir Matthías að leit standi yfir að aðstoðarþjálfara sem fylli skarð Kristjáns í þjálfarateyminu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×