Fótbolti

Trump gæti bannað Brasilíu­mönnum að mæta á HM í fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og stuðningsmenn brasilíska landsliðsins.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og stuðningsmenn brasilíska landsliðsins. Getty/ Bradley Kanaris

Ef það er eitthvað sem er hægt að ganga að vísu þá er það að Brasilíumenn mæta í stórum og litríkum hópum til að styðja við bakið á sínu liði á heimsmeistaramótunum í fótbolta. Kannski þó ekki mikið lengur.

Stuðningsmenn brasilíska landsliðsins gætu orðið fórnarlamb þess slæma milliríkjasambands sem ríkir nú á milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og núverandi leiðtoga Brasilíu.

CNN í Brasilíu slær því upp að svo gæti hreinlega farið að Trump bannaði Brasilíumönnum að mæta á HM í fótbolta í Bandaríkjunum næsta sumar.

Stuðningsmennirnir yrðu samt ekki beint skotmark hjá Trump heldur myndi hann banna öll brasilísk vegabréf í Bandaríkjunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar sagt að hann ætli að leggja fimmtíu prósenta tolla á vörur framleiddar í Brasilíu, meðal annars vegna „nornaveiða“ á fyrrverandi forseta Brasilíu.

Hann tilkynnti áformin í tollabréfi sem hann deilir á samfélagsmiðlum, en í færslunni sakaði han stjórnvöld í Brasilíu um „árásir“ á bandarísk tæknifyrirtæki og sögðu stjórnvöld þar standa fyrir „nornaveiðum“ gegn fyrrverandi forsetanum Jair Bolsonaro, sem er bandamaður Trumps of bendlaður við öfga hægrið.

Svo gæti farið að deilurnar stigmagnist eins og er oft sagan með Trump og Brasilíumenn óttast núna að þeim verði meinuð innganga í Bandaríkin.

CNN leitaði eftir viðbrögðum frá Alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA og forseta þess Gianni Infantino en fékk engin svör.

Infantino og Trump eru miklir mátar og Bandaríkjaforseti var heiðursgestur á úrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða á dögunum.

Brasilía hefur verið með á öllum heimsmeistaramótum sögunnar í karlaflokki og unnið oftast allra þjóða eða fimm sinnum (1958, 1962, 1970, 1994 og 2002). 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×